Akureyringurinn Einar Bessi Gestsson hefur haft í nógu að snúast undanfarnar vikur. Einar er menntaður jarðfræðingur og starfar sem náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann hefur fylgst vel með gangi mála frá því að eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli föstudagskvöldið 19. mars. Síðan þá hafa gossprungur myndast á tveimur stöðum til viðbótar við fyrstu gosstöðvarnar. Vikurnar áður en eldgosið hófst var mjög öflug jarðskjálftahrina á svæðinu sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu fundu vel fyrir.
„Fyrst var okkar helsta verkefni að yfirfara staðsetningar á skjálftunum og fylgjast með breytingum í virkninni þar sem það gæti gefið vísbendingar um hvar og hvort myndi byrja að gjósa. Veðurstofan er svo í góðu samstarfi með Almannavörnum, Jarðvísindastofnun og öðrum stofnunum sem funda reglulega þar sem farið er yfir öll gögn sem tengjast virkni á umbrotasvæðinu til þess að meta stöðuna og geta upplýst fólk um mögulegar hættur eða breytingar á svæðinu,“ segir Einar í spjalli við Kaffið.is.
Þetta er fyrsta eldgosið sem Einar fæst við síðan hann byrjaði í starfi. Hann segir ferlið hafa verið gríðarlega lærdómsríkt .
„Allt frá því að umbrotin á Reykjanesskaga hófust þegar landris við Þorbjörn og töluverð jarðskjálftavirkni hófst í upphafi árs 2020. Það er frábær reynsla að fá að taka þátt í viðbragði og túlkun á þessum atburðum í samvinnu við viðbragðsaðila og margt af fremsta jarðvísindafólki landsins. Vinna í kringum þessa atburði er svo sannarlega eitthvað sem fer í reynslubankann hjá ungum jarðfræðingi eins og mér.“
Einar segir að það sé góður hópur af fólki sem gengur í vaktirnar á Veðurstofunni svo að hann hafi fengið tækifæri til þess að hvíla sig á milli vakta. Hann segir þó að hann fái eiginlega ekki nóg af eldgosinu í vinnunni.
„Vaktafríin hafa stundum verið nýtt í gönguferðir að gosstöðvunum. Ég skil vel að margir hafi áhuga á þessu, þetta er magnað tækifæri til að sjá eldgos svo nærri byggð,“ segir Einar Bessi.
Einar hóf störf hjá Veðurstofu Íslands eftir að hann lauk meistaranámi í jarðfræði. Hann segir að námið hafi undirbúið hann vel fyrir starfið og að hann hafi verið svo heppinn að það hafi einmitt verið auglýst eftir fólki þegar hann útskrifaðist. Hann segir að náttúruöflin hafi alltaf heillað og að honum hafi fundist spennandi að fá að taka þátt í því að vakta og bregðast við stórum atburðum eins og eldgosum, jarðskjálftum og jökulhlaupum.
„Starfið er fjölbreytt en snýst fyrst og fremst um að vakta og fylgjast með virkni á svæðum á Íslandi þar sem hætta er á jarðskjálftum, flóðum, jökulhlaupum eða eldgosum. Veðurstofan rekur viðamikið mælanet af ýmsum tegundum mæla, t.d.jarðskjálftamælum, GPS-mælum, Gasmælum og Vatnshæðarmælum. Náttúruvársérfræðingar fylgjast með þessum mælingum allan sólarhringinn og gefa út tilkynningar þegar atburðir eiga sér stað eða eru í uppsiglingu. Náttúruvársérfræðingar eru líka í miklu samstarfi við veðurfræðinga á vakt og gera meðal annars veðurathuganir og lesa veðurfréttir í útvarpi,“ segir Einar.
UMMÆLI