Sandra María upplifði kulnun: „Því miður enn þá mikið feimnismál á Íslandi“

Sandra María upplifði kulnun: „Því miður enn þá mikið feimnismál á Íslandi“

Aðeins nokkrum dögum fyrir 24 ára afmælisdaginn hennar Söndru Maríu Jessen bárust fréttir af því að hún hefði skrifað undir sinn fyrsta atvinnumannasaming við þýska liðið Bayer Leverkusen. Hún hefur vissulega áður farið út að spila fyrir atvinnumannalið, annarsvegar í janúar 2016 til Bayer Leverkusen og hinsvegar í janúar 2018 til Slavia Prag í Tékklandi. Í þau skipti fór hún út á lánssamningi og snéri því til baka með vorinu. Atvinnumannasamningurinn núna gildir fram í júní 2020 og því ljóst að Sandra hefur sagt skilið við lið Þór/KA, allavega í bili. 

Nýr völlur, æfingasvæði og þjálfari

Þrátt fyrir að Sandra hafi farið áður út og spilað fyrir lið Bayer Leverkusen þá bíður hennar nýtt ævintýri núna. „Já þetta er í rauninni nýtt lið sem ég er að fara til. Ég þekki vissulega vel til borgarinnar og veit hver gæðin eru í deildinni. En núna er komið nýtt æfingasvæði, nýr völlur og annar þjálfari, þannig að þetta er nýtt og spennandi verkefni fyrir mig. Mér líður vel með þá tilhugsun að flytja út til Þýskalands. Ég sjálf er hálfur Þjóðverji og það að hafa áður farið út á lánssamningi og spilað með liðinu, hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun,“ sagði Sandra María í viðtali hjá Skúla Braga í Taktíkinni á N4.

Mjög blendnar tilfinningar

Sandra á að baki 140 leiki og 85 mörk fyrir Þór/KA og 24 leiki og 6 mörk fyrir íslenska landsliðið, auk 25 leiki fyrir yngri landslið. Hún hefur gengið gegnum súrt og sætt á þessum tíma en virðist alltaf koma sterkari til baka. Hún hefur tvisvar slitið krossband en á móti tvisvar orðið Íslandsmeistari. Þá var hún var valin besti leikmaður Pepsi-deildarinnar af leikmönnum sumarið 2018 og því alveg ljóst að brotthvarf Söndru er mikill missir fyrir lið Þór/KA. „Já þetta eru náttúrlega mjög blendnar tilfinningar. Ég er að sjálfsögðu afar stolt af því að vera að fara út í atvinnumennsku. Þetta hefur verið mitt markmið og draumur síðan að ég byrjaði að æfa fótbolta. Þannig að þetta er ótrúlega skemmtilegt en á sama tíma er erfitt að hugsa til þess að ég sé ekki að fara að berjast með stelpunum í sumar.“

Bilið milli karla og kvenna

Þótt atvinnumennska í knattspyrnu sé draumur í hugum margra þá er hún ekki eintómur dans á rósum. Þetta er harður heimur sem á langt í land með að ná fram jafnrétti kynjanna. „Því miður eins og staðan er í heiminum núna, þá er það þannig að knattspyrnumenn eru betur settir launalega og um þá er betur hugsað en okkur konurnar. Að einhverjum hluta til þá græðum við stelpurnar vissulega á því líka, þegar að við fáum að spila við þær góðu aðstæður sem verða til vegna peninga í karlaboltanum. En þetta bil sem er sett á milli karla og kvenna í knattspyrnu finnst mér mjög ósanngjarnt, og ég held að það séu mjög margir sammála mér í því. Það er ekki svona mikill munur á milli og við konurnar eigum meira skilið en við erum að fá.“

Selja klósettpappír fyrir stórleik

Í sumar spilaði lið Þór/KA í 32-liða úrslitum Meistardeildar Evrópu á móti stórliði Wolfsburg sem telst meðal stekustu liða í heimi í kvennaknattspyrnu. Á sama tíma þurftu leikmenn líðsins að standa  í fjáröflunum til þess eins að eiga fyrir þeim útgjöldum sem fylgja því að stunda knattspyrnu. „Það er í raun sorglegt hversu mikill munur er á milli kvenna og karla knattspyrnu. Þetta er ekkert eitthvað smá, við erum ekkert að væla útaf einhvejrum þúsundköllum. Við erum að selja klósettpappír daginn fyrir leik á móti einu stærsta liði heims á meðan karlarnir sem spila á þessu stigi í Meistaradeildinni liggja bara í nuddi og þurfa engar áhyggjur að hafa af fjármálum. Þeir þurfa oft á tíðum ekki að hafa eins mikið fyrir því að einfaldlega fá að spila fótbolta og við.“

Kulnun því miður feimnismál

Sandra opnaði sig núverið varðandi það að upplifa kulnun og finna fyrir áhugaleysi gagnvart knattspyrnu. „Það hafði verið rosalega mikið álag á mér í langan tíma og ég gaf mér ekki tíma til þess að næra mig, hugsa um líkama og sál. Ég var búinn að spila allan ársins hring í nokkurn tíma án þess að fá almenninlegar pásur á milli tímabila. Það á endanum varð til þess að ég upplifði kulnun. Það er því miður enn þá mikið feimnismál á Íslandi en er samt sem áður stórt vandamál í samfélaginu.“

Vandann ber að tækla hver sem vandinn er

„Manni finnst það sjálfsagt og það gera það allir, að ef þú meiðir þig á ökkla þá ferðu og hittir sjúkraþjálfara til þess að vinna úr því. En um leið og vandamálið varðar sjálfsmynd, hugarfar eða einhverja andlega þætti þá er það orðið meira feimnismál. Maður óttast það að vera litin öðru auga ef maður viðurkennir að slíkir þættir séu að angra mann. En auðvitað eigum við að geta hitt sálfræðing líka ef það er eitthvað sem er að angra okkur, alveg eins og sjúkaþjálfarann.“

Jákvætt skref

„Ég held að allir íþróttamenn upplifi mótlæti, sveiflur upp og niður gegnum ferilinn. Það er bara partur af því að vera í íþróttum. Ég hef sjálf upplifða þetta oft að vera slegin niður og þurfa að rífa mig sjálfa aftur upp. Það er eitthvað sem að hefur styrkt mig. Það sem sló mig núna alveg lengst niður á botninn var þegar að ég var ekki í landsliðshópnum sem var tillkynntur á þessu ári. Það reyndist mér mjög erfitt en það er þá sem að maður sér hvað það er mikilvægt að eiga gott fólk í kringum sig sem stendur við bakið á manni og styður mann áfram. Þetta er núna verkefni fyrir mig til þess að takast á við og ég er tilbúinn til þess að gera allt mitt til þess að rífa mig upp og á hærra plan. Ég held því að þetta skref að fara út og takast á við nýja áskorun sé mjög jákvætt skref í þessu ferli.“

Ítarlegt viðtal við Söndru Maríu má finna í N4 dagskránni þessa vikuna og í spilaranum hér að neðan.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó