Sandra B. Clausen gefur út framhaldssöguna: Flóttinn


Sandra B. Clausen, 34 ára akureyrarmær og rithöfundur gaf út nýja bók í bókaseríuna Hjartablóð núna í júní. Fyrsta bókin í seríunni kom út í fyrra og ber nafnið Fjötrar, en hún komst á metsölulista Kiljunnar fyrir síðustu jól. Þessi nýja bók er sjálfstætt framhald í seríunni, en Sandra segist ekki geta gefið upp hvenær sú þriðja, Ferðin, kemur út þar sem hún er enn í vinnslu.

Sandra segist hafa farið í mikla heimildarvinnu fyrir bækurnar á bókasöfnum Reykjavíkur, en bækurnar gerast á 17. öld þar sem sögulegu samhengi og menningarlegri arfleið er gert hátt undir höfði. Sandra segir að bókunum hafi einhverjir líkt við Ísfólkið, sem kom út á sínum tíma og naut mikilla vinsælda. Hún segir einhver líkindi vera með bókunum en Hjartablóð heldur sig þó meira á jörðinni og er raunsærri saga.

,,Þetta er örlagasaga með erótísku ívafi. Ég hef alltaf verið blóðheit manneskja gagnvart jafnrétti fólks og berst Magda við það óréttlæti sem konur eru beittar á þeim tímum, einnig er ég opinská í kynlífs lýsingum og ekkert ósagt í þeim efnum. Skyggnst er inn í líf fólks á þessum erfiðu en jafnframt heillandi tímum í Skandinavíu,“ segir Sandra.

Ímyndunaraflið blómstraði í sveitinni

Sandra B. Clausen elskar að vera í náttúrunni.

Kaffið vildi skyggnast aðeins betur í það hver höfundur bókanna væri í raun og veru og hvaðan hún fengi innblástur bókanna. Sandra segir að alveg frá því að hún var barn hafi ímyndunarafl hennar verið afar sterkt, svo sterkt að foreldrum hennar fannst stundum nóg komið. Hún fór sínar eigin leiðir, og þótti fátt betra en komast upp í sveit með fjölskyldunni þar sem hún gat verið í kyrrðinni og leyft ímyndunaraflinu að leika lausum hala.

,,Það var svolítið eins og að stíga inní tímavél að fara í sveitina, ekkert heitt vatn var í húsinu og aðeins lítið túbusjónvarp sem sýndi lélega útsendingu af Ríkissjónvarpinu. Ég þurfti því að hafa ofan af fyrir sjálfri mér. Þegar faðir minn grillaði á kvöldin, gerði hann það oft ofan í jörðinni í svokölluðu holugrilli, hann veiddi fugla á þeim árum og héngu þeir oft í trjánum. Þótti mér skemmtilegt að sjá hann gera að þeim og undirbúa til matar. Það var auðvelt að gleyma sér á þessum slóðum, ég trúði því að í dalnum leyndust álfar og huldufólk þar sem mikið var um hella og hraun. Margar hættur leyndust í dalnum og voru nokkrir hlutir mér bannaðir, sem ég að sjálfsögðu þurfti að prófa, svo ég var “óþekkt,” barn, upp að vissu marki. En samviskan var stór og ég þurfti alltaf að segja frá ef ég gerði eitthvað af mér svo ég sat oft í skammakróknum.“

Beraði sig stundum ein úti í náttúrunni
,,Þegar ég varð eldri fóru ferðirnar að verða einsleitar en þá fóru einnig vissar kenndir að gera vart við sig, þá þótti mér einveran góð og beraði ég mig stundum ein úti í náttúrunni. Það var afar frelsandi og upplifði ég mig nær náttúrunni á einhvern hátt, eins ég kæmist nær uppruna mínum,“ segir Sandra og greinilegt að innblástur að aðalpersónunni, Mögdu, hefur einhverjar rætur að rekja í sveitarferðir hennar.

Sandra segist hafa hugað að persónunni fyrir nokkrum árum síðan. Hún segir þó persónuna hafa búið innra með sér mun lengur, eða allt frá því að hún fermdist og síðan hefur persónan mótast og þroskast í takt við hana sjálfa. ,,Partur af henni býr í mér, hinn helmingur hennar er eintómur hugarburður“.

Lýsing bókarinnar gefur til kynna að hún sé æsispennandi, en hana má sjá hér að neðan:

Eftir æsileg ævintýri og mikla lífshættu í heimkynnum sínum í Smálöndum Svíþjóðar er söguhetjunni Magdalenu að lokum rænt af hættulegum óvini. Hún er færðað dimmum ströndum Íslandsþar sem nýjar ógnir hellast yfir hana. Ísland í greipum miðaldra er land galdra og myrkurs, ofsa og illsku og líka nýrra ævintýra.

En úlfur í sauðagæru situr um hana. Mun Magdalena finna ást sína aftur?

Bókina er hægt að fá í verslunum Eymundsson og inn á www.forlagid.is.

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó