Forvarnadagurinn var haldinn 3. október síðastliðinn í flestum skólum landsins. Á forvarnadeginum var sjónum beint að nemendum fædd árið 2004 og ganga nú í 9. bekk grunnskóla. Á Akureyri bauðst nemendum í 9. bekk og foreldrum þeirra að taka þátt í netkönnun um forvarnir sem þau fengu senda rafrænt heim. Óskað var eftir því að foreldrar og unglingur þeirra svöruðu könnuninni í sameiningu og var svarhlutfall 23%.
Með könnuninni eru foreldrar og unglingur hvött til að ræða saman m.a. um samveru fjölskyldunnar, fíkniefni, svefn og neyslu orkudrykkja. Þátttakendur gátu svo unnið verðlaun fyrir þátttöku sína og í boði voru flottir vinningar fyrir fjölskylduna sem stuðla að samveru og skemmtun.
Margt áhugavert má lesa úr niðurstöðum könnuninnar og sér í lagi þegar þær eru skoðaðar og bornar saman við niðurstöður könnunar Rannsóknar og greiningar sem lögð var fyrir alla nemendur árgangsins í febrúar 2018. Rannsókn sú nefnist Ungt fólk og hefur verið framkvæmd árlega síðustu 20 árin og gefur góða vísbendingu um stöðu ungs fólks á Íslandi.
Svefn unglinga og neysla orkudrykkja
Svefn er öllum nauðsynlegur en í svefni fer meðal annars fram upprifjun og úrvinnsla upplýsinga og hefur hann því áhrif á námsgetu og minni. Samkvæmt Embætti landlæknis þurfa unglingar samtals um 10 tíma svefn á nóttu sem er meiri svefnþörf en börn á yngri stigum grunnskóla hafa sem eru níu tímar. Ástæður þess er aukið álag á líkama þeirra, vöxtur og þroski vegna gelgjuskeiðsins. Flestir þátttakendur telja að unglingar í 9. bekk þurfi um 9 klst. á sólahring í svefn en samkvæmt niðurstöðum Rannsóknar og greiningar sofa um 60% unglinga í 9. bekk á Akureyri undir 9 klst á sólahring. Að sama skapi telja 99% foreldra í sömu rannsókn að þeirra unglingur eyði ekki pening í orkudrykki en samkvæmt niðurstöðum Rannsóknar og greiningar frá því í febrúar sögðust um 22% unglinga í þessum árgangi á Akureyri drekka orkudrykki daglega. Af því leiðir að foreldrar íhugi hvort svefnhegðun og neysla orkudrykkja þeirra unglings fari saman og hafa skal í huga að margir unglingar fara leynt með neyslu sína á orkudrykkjum. Annars virðast unglingar á Akureyri vera mun hlynntari neyslu orkudrykkja en aðrir unglingar á landinu en í könnuninni Ungt fólk kemur fram að 30% þeirra drekki orkudrykk daglega en að landsmeðaltalið sé um 10%.
Notkun, viðhorf og aðgengi að vímugjöfum
Aðspurð á forvarnadaginn telja 96.6% þátttakenda, foreldrar og unglingar, að veip sé skaðlegt. Unglingar fædd árið 2004 virðast hinsvegar fikta við noktun veips eins og aðrir unglingar á landinu og í febrúar 2018 höfðu 13% þeirra prufað að veipa. Rannsóknin Ungt fólk sýnir að undir lok grunnskóla eru um 15% unglinga farinn að veipa reglulega. Það er vert að velta því fyrir sér hve mikil umræðan um skaðsemi annarra ávanabindandi hegðunar en reykinga sé, því samfara minnkandi reykingum unglinga síðustu tvo áratugi hefur neysla á veipi aukist.
Misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja hefur aukist gífurlega undanfarin misseri og er aðgengi að slíkum lyfjum umhugsunarefni. Í könnun forvarnadagsins kom í ljós að á 32% heimila unglinga fæddra árið 2004 á Akureyri séu lyfseðilskyld lyf ekki geymd á öruggum stað þar sem börn og unglingar ná ekki til.
Samvera unglinga og foreldra
Aldrei er góð vísa of oft kveðin og við höfum líklegast öll heyrt að ein áhrifaríkasta forvörnin gegn áhættuhegðun sé samvera foreldra og barna. Unglingar á Akureyri greina frá því í rannsókninni Ungt fólk að foreldrar þeirra veiti þeim hlutfallslega góðan stuðning og eftirlit og að þau viti hvaða hegðun sé leyfileg þegar þau eru utan heimilis og að foreldrar þeirra séu almennt meðvituð um hvar þeir séu. Hinsvegar kemur í ljós að samvera foreldra og unglinga hefur minnkað frá því árið 2016 og eru foreldrar á Akureyri minna með börnum sínum en aðrir á landsvísu.
Heilt yfir
Segja má að vegna góðs gengis í forvarnamálum og samtakamáttar foreldra síðustu áratugi höfum við sofnað á verðinum síðustu ár. Hið íslenska módel sem talað er um og horft til erlendis frá hefur skilað miklum árangri en í fyrsta sinn í þó nokkurn tíma verðum við vör við drykkju unglinga í grunnskólaaldri og eftirlitslaus partý í heimahúsum. Það er okkar að aðstoða þau við að taka góðar ákvarðanir. Af gefnu tilefni er vert að minnast þess að okkur er skylt að tilkynna til viðeigandi aðila, barnaverndar, lögreglu og/eða skóla ef við höfum áhyggjur af velferð barna og unglinga.
Til stendur að boða til Málþings um forvarnir og velferð unglinga og barna 23. janúar 2019 sem verður nánar auglýst síðar.
Forvarna- og félagsmálaráðgjafar Akureyrar
UMMÆLI