Samstæða Akureyrarbæjar rekin með miklum afgangi árið 2021

Samstæða Akureyrarbæjar rekin með miklum afgangi árið 2021

Í gær voru ársreikningar Akureyrarbæjar lagðir fram og sýndu þeir að reksturinn árið 2021 gekk vel en bærinn var rekinn með 752 milljón króna afgangi. Munaði þá um að sjóðstreymið var betra það ár en árið áður.

Á heimasíðu Akureyrarbæjar kemur fram að „Samstæða Akureyrarbæjar, þ.e. Aðalsjóður, Fasteignir Akureyrarbæjar, Eignasjóður gatna og Umhverfismiðstöð ásamt fyrirtækjum í eigu bæjarins, s.s. Félagslegar íbúðir, Strætisvagnar Akureyrar, Hlíðarfjall, Hafnasamlag Norðurlands, Norðurorka og Öldrunarheimilin, var rekin með 752 millj. kr. afgangi. Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar gekk mun betur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða ársins var jákvæð um 752 millj. kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 1.184 millj. kr. neikvæðri niðurstöðu. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 2.460 millj. kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 482 millj. kr. rekstrarafgangi. Meginskýringar á bættri afkomu eru hærri skatttekjur af útsvari og minni aukning lífeyrisskuldbindinga en gert var ráð fyrir.“

Þá kemur einnig fram að „samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 3.906 millj. kr. sem var 1.736 millj. kr. hærra en áætlað var. Sambærileg fjárhæð árið áður var 2.312 millj. kr. Handbært fé frá rekstri nam 2.748 millj. kr. Fjárfestingahreyfingar námu samtals nettó 3.355 millj. kr. en fjármögnunarhreyfingar námu samtals nettó 1.310 millj. kr. Afborgun langtímalána nam 1.145 millj. kr. en ný langtímalán voru 2.000 millj. kr. Hækkun á handbæru fé á árinu nam 703 millj. kr. og var handbært fé samstæðunnar í árslok 3.215 millj. kr. Veltufé frá rekstri árið 2021 í hlutfalli við tekjur nam 13,74% í samstæðunni og 9,43% í A-hluta. Árið áður voru hlutföllin 8,37% í samstæðunni og 4,47% í A-hluta.“

Ársreikningnum er skipt í tvo hluta. Annars vegar A-hluta sem tekur til starfsemi sem er fjármögnuð af skatttekjum, að hluta eða öllu leyti. Hins vegar er það B-hlutinn sem tekur til fjárhagslegra sjálfstæðra fyrirtækja sem eru í eigu sveitarfélaga, að hálfu eða hluta til, en rekstur þeirra er fjármagnaður með þjónustutekjum að stofni til. Kemur þá fram að „niðurstaða rekstrar A-hluta var jákvæð um 318 millj. kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 1.447 millj. kr.“

Í tilkynningu Akureyrarbæjar kemur fram að fjárhagur bæjarins sé traustur „og nam skuldaviðmið samstæðunnar í árslok 86% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 85% árið áður. Skuldaviðmið í A-hluta var 61% í árslok en var 62% árið áður.“

Ársreikningurinn verður til umfjöllunar hjá bæjarstjórn Akureyrar dagana 12. og 26. apríl nk.

VG

UMMÆLI

Sambíó