NTC

Samruni Kjarnafæðis og Norðlenska

Samruni Kjarnafæðis og Norðlenska

Eigendur Kjarnafæðis og Norðlenska hafa komist að samkomulagi um helstu skilmála samruna félaganna. Kjarnafæði er í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona, en Norðlenska er í eigu Búsældar, sem er í eigu um 500 bænda á Íslandi.

„Með samruna félaganna eru eigendur að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi matvælaiðnaðar undanfarin misseri. Það er mat eigenda félaganna að sameinað félag sé betur í stakk búið til að veita viðskiptavinum sínum og birgjum, ekki síst bændum, góða þjónustu á samkeppnishæfu verði,“ segir í tilkynningu.

Kjarnafæði og Norðlenska hafa átt í viðræðum um samruna frá því á haustmánuðum 2018 en líkt og fram hefur komið hafa félögin nú náð saman um þau atriði sem útaf stóðu.

Samkomulag um samruna félaganna er með fyrirvara um samþykki Samkeppnisyfirvalda og samþykki hluthafafundar Búsældar. 

Íslandsbanki veitir samrunafélögunum ráðgjöf í samrunaferlinu.

Um Kjarnafæði: Kjarnafæði var stofnað árið 1985 af bræðrunum Eiði og Hreini Gunnlaugssonum og framleiðir úrval kjötvara, einkum undir vörumerkinu Kjarnafæði. Hjá félaginu starfa 130 manns og fer starfsemin að mestu fram á Svalbarðseyri. Til viðbótar við rekstur Kjarnafæðis er afurðarstöð SAH á Blönduósi í sömu eigu, en þar eru unnin 52 ársverk, ásamt um 34% hlut í Sláturfélagi Vopnfirðinga, þar sem rekin eru sauðfjársláturhús.

Um Norðlenska: Norðlenska varð til árið 2000 við samruna kjötiðnaðarstöðvar KEA og Kjötiðjunnar Húsavík, en stækkaði árið 2001 þegar félagið sameinaðist þremur kjötvinnslum Goða. Félagið er í eigu Búsældar, félags kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi, en hluthafar Búsældar eru um 500 bændur. Um 190 ársverk eru unnin hjá félaginu og skiptist starfsemin á milli Akureyrar, þar sem rekið er stórgripasláturhús og kjötvinnsla,  Húsavíkur, þar sem rekin er sauðfjársláturhús og kjötvinnsla fyrir sauðfjárafurðir, og söluskrifstofa í Reykjavík. Félagið framleiðir úrval kjötvara, einkum undir vörumerkjunum Norðlenska, Goði, Húsavíkurkjöt, og KEA.

VG

UMMÆLI

Sambíó