Eyjafjarðarsveit hefur samið við B. Hreiðarsson ehf. um síðari áfanga leikskólaviðbyggingar við Hrafnagilsskóla en tvö tilboð bárust í framkvæmdina. Áætlað er að starfsemi leikskólans Krummakots geti flutt í nýtt húsnæði snemma árs 2025. Þetta kemur fram á vef Eyjafjarðarsveitar.
Verkið var boðið út í tveimur áföngum og er fyrri áfanga leikskólabyggingarinnar þegar lokið, gólfplata og lagnakjallari tilbúin. Síðari áfanginn felur í sér að reisa bygginguna og ganga frá henni svo unnt sé að flytja starfsemi leikskólans Krummakots yfir í nýtt og glæsilegt húsnæði þar sem mögulegt verður að tengja starfsemi leik- og grunnskóla á betri og skilvirkari máta.
Gert er ráð fyrir að ný leikskólabygging rúmi yfir 110 börn á fimm deildum eða um 40% fleiri pláss en nemendur Krummakots fylla í dag. Þá gerir hönnun og innra skipulag byggingarinnar einnig ráð fyrir sveigjanleika til að bregðast við sveiflum í fjölda nemenda bæði til aukningar sem og fækkunar. Á skólalóðinni rís síðan glerskáli sem mun nýtast sem útikennslurými bæði fyrir nemendur leik- og grunnskóla.
Kostnaðaráætlun áfangans var 633 mkr. Tilboð B. Hreiðarsson ehf. var um 107% af kostnaðaráætlun en tilboð ÁK Smíði ehf. um 109%.
UMMÆLI