NTC

Samið um orkuskipti við Dettifoss og á Grímsstöðum á Fjöllum

Samið um orkuskipti við Dettifoss og á Grímsstöðum á Fjöllum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK, hafa undirritað samning um að RARIK taki að sér að leggja háspennulögn úr Kelduhverfi að Dettifossi og Grímsstöðum á Fjöllum. Gert er ráð fyrir að afhending raforku á þessum stöðum geti hafist fyrir lok næsta árs.

Þar með verða Grímsstaðir á Fjöllum tengdir við raforkukerfið og með því komið í veg fyrir að framleiða þurfi raforku á staðnum með dísilolíu sem hefur bæði í för með sér  umhverfisávinning og hagræðingu. 

Einnig verður mikilvægri hindrun í rafvæðingu samgangna rutt úr vegi þar sem nú verður mögulegt að setja upp  hleðslustöðvar við Dettifoss og á lykilstöðum á þjóðvegi 1 en um er að ræða það landsvæði þar sem lengst er á milli hleðslustöðva á þjóðveginum. Því er um að ræða mikilvægt og stórt skref fyrir samgöngur og ferðaþjónustu á svæðinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Á Íslandi hefur verið gat í raforkukerfinu þar sem ekki hefur verið aðgengi að raforku á svæði sem nær frá Kröflu inn á Jökuldal. Þetta raforkuleysi hefur valdið því að 170 km eru milli hraðhleðslustöðva á þjóðvegi 1 og að á Grímsstöðum á Fjöllum hefur þurft að framleiða raforku með dísilolíu. Í dag greiðir ríkið að meðaltali um 15 milljónir kr. á ári vegna reksturs dísilstöðva á Grímsstöðum á Fjöllum auk niðurgreiðslu á olíuhitun, til að tryggja orkuöryggi á svæðinu. Með samningnum vinnum við bót á þessu, náum um 1.000-2.000 tonna samdrætti í kolefnislosun yfir 10 ára tímabil og komum á orkuskiptum á svæði sem er ein af helstu ferðamannaperlum landsins.“   

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK: „RARIK rekur víðfeðmasta dreifikerfi landsins sem teygir sig víða og tryggir lífsgæði og verðmætasköpun í okkar dreifbýla landi. Samningurinn sem við höfum nú undirritað er eitt skref í átt að rafvæðingu dreifðra svæða og fullum orkuskiptum á Íslandi. Ekki væri mögulegt að vinna verkefni sem þetta í strjálbýlinu nema með sterkri aðkomu stjórnvalda svo við fögnum þeirri þátttöku og tökum við boltanum. Háspennulögnin verður lögð 2025 og mun skapa tækifæri fyrir ferðaþjónustu og betri búsetuskilyrði en verður ekki síst frábært framlag til loftslags- og umhverfismála.“

Mynd: Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK, undirrita samninginn.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó