Samherji og Ice Fresh Seafood áberandi á stærstu sjávarútvegssýningu heims

Alþjóðlega sjávarútvegssýningin Seafood Expo Global í Barcelona á Spáni opnaði þriðjudaginn 23. apríl. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum á sviði veiða, vinnslu og sölu sjávarafurða.

Samherji og Ice Fresh Seafood eru að venju með stóran og vel útbúinn bás, þar sem tekið er á móti gestum frá öllum heimshlutum og afurðir kynntar. Ice Fresh Seafood sér um að selja afurðir Samherja og fleiri fyrirtækja.

Besti veitingastaðurinn á bás Samherja

Steinn Símonarson aðstoðarframkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood segir að sýningin í Barcelona sé afskaplega mikilvæg í sölu- og markaðsmálum. Nokkrar risastórar sýningahallir verði miðpunktur alþjóðlegs sjávarútvegs, þar sem kynnt er allt hið besta og nýjasta sem fyrirtæki í hafsæknum greinum hafa upp á að bjóða.

“Básinn okkar hefur alltaf verið vel sóttur og hann er á áberandi stað, þannig að við erum vel í sveit sett á allan hátt. Einar Geirsson matreiðslumeistari og eigandi veitingastaðarins RUB 23 á Akureyri hefur í um tvo áratugi séð um matreiðslu á básum Samherja og svo er einnig að þessu sinni. Afurðir Samherja eru þekktar fyrir gæði og ferskleika og við höldum því hiklaust fram að besti veitingastaður sýningarinnar sé einmitt á okkar bás. Eins og venjulega er ferskur fiskur í fyrirrúmi og gestirnir róma mjög okkar afurðir.”

Rafræn samskipti leysa ekki persónuleg tengsl af hólmi

Einar Gíslason matreiðslumeistari sér um matreiðsluna. Nóg að gera hjá honum frá morgni til kvölds.

Steinn segir að á slíkum sýningum sé fyrst og fremst verið að treysta viðskiptasambönd og stofna til nýrra.

“Undirbúningurinn er töluverður og hófst í raun daginn eftir að sýningunni í fyrra lauk. Starfsfólk okkar er með bókaða fundi svo að segja frá morgni til kvölds, þannig að það er eins gott að skipulagið gangi upp eins og lagt er upp með. Stundum er sagt að íslenski fiskurinn selji sig sjálfur en það er nú aldeilis ekki svo. Þrátt fyrir hraða þróun í rafrænum samskiptum er staðreyndin sú að persónuleg tengsl eru mikilvæg. Hérna hittum við fulltrúa fyrirtækja sem hafa verið í viðskiptum við okkur í áratugi og treystum enn frekar samvinnuna en stofnum einnig til nýrra viðskiptasambanda.“

Kjörinn vettvangur til að rækta traust og farsæl viðskiptasambönd

Ingibjörg Aradóttir sölufulltrúi hjá Ice Fresh Seafood hefur starfað lengi í alþjóðlegum sjávarútvegi. Hún segir alltaf tilhlökkunarefni að hitta viðskiptavini á Seafood Expo Global.

„ já, við getum sagt að ég sé orðin nokkuð sjóuð í þessari atvinnugrein. Stundum er sagt að þetta sé árshátíð alþjóðlegs sjávarútvegs og það er mikið til í því. Sýningin var áður í Brussel í Belgíu en ég er ekki frá því að Barcelona henti betur. Mér skilst að sýnendur séu rúmlega tvö þúsund og sýningahallirnar samtals um fimmtíu þúsund fermetrar. Samkeppni í alþjóðlegum sjávarútvegi er hörð og þá er lykilatriði að kynna sem best okkar frábæra hráefni og síðast en ekki síst að rækta traust og farsæl viðskiptasambönd. Básinn okkar er á tveimur hæðum og hannaður þannig að við getum rætt við viðskiptavini í ró og næði, auk þess að vera með vel sóttan veitingastað í heimsklassa. Allt starfsfólk á básnum er einstaklega samheldið og veit nákvæmlega hvernig á að ná settum markmiðum. Dagskráin hjá mér er þéttskipuð en með góðu skipulagi næ ég að hitta marga, fara 

Ingibjörg Aradóttir og Steinn Símonarson

yfir málin og kanna hvað má betur fara. Þetta er skemmtileg törn, markmiðið er alltaf að bæta gæði þjónustunnar. Hver markaður er með sín einkenni og hérna gefst tækifæri til að leggja drög að framtíðarviðskiptum og styrkja þau sem fyrir eru. Ég reyni líka að finna tíma til að skoða nokkra bása til að kynnast stefnum og straumum í greininni, enda er sjávarútvegur spennandi atvinnugrein og þróunin er gríðarlega hröð á flestum sviðum,“ segir Ingibjörg Aradóttir sölufulltrúi hjá Ice Fresh Seafood.

Frétt og myndir: Samherji.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó