Systurskip Samherja, Kaldbakur EA 1, Björgúlfur EA 312 og Björg EA 7, voru aflahæstu togarar ársins 2024, Kaldbakur var aflahæstur með 8.933 tonn, Björgúlfur í öðru sæti með 8.687 tonn og Björg í því þriðja með 8.186 tonn. öTlurnar fær Samherji frá Aflafrettir.is.
Á vef Samherja segir Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs, að systurskipin hafi reynst afskaplega vel.
„Í sjálfu sér er ekki sérstakt markmið að vera í efstu sætum á þessum listum, verkefnið er fyrst og fremst að koma á tilsettum tíma með góðar afurðir til vinnslu. Hráefnisstýring er stór þáttur í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja, þar sem veiðar, vinnsla og sala afurða fara saman. Til þess að sjá vinnslunum fyrir hráefni, þurfa skipin að landa sex til sjö sinnum í viku, sem þýðir í raun að þau landa stundum tvisvar sinnum í sömu vikunni. Stýring veiða getur því á köflum verið nokkuð flókin. Okkur tókst að halda vinnslunum gangandi alla daga ársins nema tvo vegna óveðurs, enda kallar markaðurinn eftir stöðugu framboði.“
„Systurskipin eru að verða átta ára gömul og hafa þau reynst okkur afskaplega vel, enda var vandað til allra verka við smíði þeirra og viðhald hefur alltaf verið með ágætum. Síðast en ekki síst eru skipin vel mönnuð, valinn maður er í hverju plássi á öllum skipum félagsins,“ segir Kristján Vilhelmsson.