Samherji sem gerir út togarann Björgúlf EA hefur keypt Ekkó toghlera, sem er ný gerð toghlera. Smári Jósafatsson framkvæmdastjóri Ekkó segir hlerana eiga að draga verulega úr olíunotkun.
Styrkja verðugt frumkvöðlaverkefni
Hákon Þ. Guðmundsson útgerðarstjóri Samherja segir að félagið hafi í gegnum tíðina fylgst vel með nýjungum í veiðarfæragerð og tekið þátt í þróun fjölmargra verkefna.
„Íslendingar eru um margt framarlega á þessu sviði sjávarútvegs og EKKÓ hlerarnir eru ágætt dæmi um þá staðreynd. Með kaupum á þessum nýju hlerum viljum við styrkja verðugt og áhugavert frumkvöðlaverkefni, væntanlega skýrist á næstu mánuðum hvernig þeir reynast. Það er of snemmt að draga ályktanir eftir eina eða tvær veiðiferðir, aðstæðurnar geta verið svo misjafnar. Olíuverð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum misserum, þannig að það er klárlega mikið í húfi. Þróun hleranna hefur tekið nokkur ár, þannig að framleiðendurnir hafa greinilega vandað vel til verka,“ segir Hákon Þ. Guðmundsson.
Einkaleyfi víða um heiminn
Byrjað var að þróa og hanna smíði Ekkó toghlerana árið 2012 og þeir fyrstu litu dagsins ljós fjórum árum síðar. Í kjölfarið var byrjað að prófa hlerana á skipum, bæði við Ísland og erlendis. Nú er svo komið að einkaleyfi á framleiðslunni hafa verið staðfest í Bandaríkjunum, Evrópu, Rússlandi, Kína og nýverið í Ástralíu. Smári Jósafatsson framkvæmdastjóri Ekkó toghlera segir mikla þróunarvinnu liggja að baki.
Sala að hefjast á almennum markaði
„Sjálfur er ég búinn að fara í ansi margar veiðiferðir með fiskiskipum sem hafa tekið að sér að prófa hlerana. Auk þess höfum við gert tilraunir með veiðarfæratanka í tengslum við þróunarvinnuna. Búið er að smíða ellefu pör og sala á almennum markaði er að hefjast. Toghlerarnir sem Samherji keypti fyrir Björgúlf EA eru hátt í átta fermetrar að stærð.“
Hægt að stjórna þyngd hleranna
„Ég segi hiklaust að hlerarnir marki merk tímamót. Vænglaga formið er eins og skel, bakplatan er krappari en framplatan. Þetta þýðir að hlerinn togar sig út með allt öðrum hætti en aðrar tegundir hlera og eru líka dregnir á miklu minna horni. Sérstakur loftlás sem er í rými innan í skelinni stýrir auk þess hlerunum nær eða fjær yfirborðinu, sem er ótvíræður kostur. Auk þess sem hægt er að þyngja hlerana eða létta.“
Miklir fjármunir í húfi
„Samkvæmt okkar útreikningum dregst olíunotkun fiskiskipa á veiðum saman að jafnaði um tólf prósent miðað við aðrar tegundir toghlera, þannig að við erum að tala um verulegar fjárhæðir. Þegar olíuverð er í hæstu hæðum skiptir hvert prósent miklu máli, ég tala nú ekki um þegar sparnaðurinn er kominn upp í tveggja stafa tölu.“
Fylgdist með í fyrstu veiðiferðinni
Smári fór í fyrstu veiðiferðina með Björgúlfi eftir að toghlerarnir voru teknir í notkun.
„Það var virkilega gaman að sjá hversu vel þeir virkuðu. Í túrnum voru notaðar tvær tegundir af trollum á ólíkum veiðisvæðum og ég náði að mynda hlerana og skrásetja virknina. Það var líka gaman að vera um borð, Björgúlfur er glæsilegt skip og vel búið á allan hátt. Við fengum á okkur alls kyns veður og skipið haggaðist varla í góðri íslenskri brælu. Áhöfnin er auk þess einstök, valinn maður í hverju rúmi getum við sagt. Þetta var fínn túr, sem ég kem til með að muna eftir lengi,“ segir Smári Jósafatsson.
UMMÆLI