Samferða með Samherja

Einar Brynjólfsson skrifar:

Nú hefur komið upp úr dúrnum að tveir kjörnir fulltrúar Akureyrarbæjar, Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, og Matthías Rögnvaldsson, oddviti Bæjarlistans, þáðu þriggja daga boðsferð stórfyrirtækisins Samherja til Þýzkalands fyrir nokkrum vikum. Verið var að fagna nafngjöf tveggja nýrra og glæsilegra fiskiskipa sem dótturfélag Samherja, Deutsche Fischfang Union, hleypti nýverið af stokkunum.

Nokkrar umræður hafa orðið um siðferðilega hlið þessarar boðsferðar, enda var um að ræða mikil efnisleg gæði. Það er vissulega gleðiefni að öflugt fyrirtæki á borð við Samherja hafi mikil umsvif hér í bæ, og víðar reyndar, þar sem því fylgja mörg störf, bæði bein og afleidd, sem eru sannkallað hryggjarstykki atvinnulífsins. Fullyrða má að þeir séu ansi margir milljarðarnir sem farið hafa um hendur fólks og fyrirtækja fyrir tilstuðlan þessa ágæta fyrirtækis. Það hlýtur þó að teljast óheppilegt að forsvarsmenn þess setji kjörna fulltrúa bæjarfélagsins í þá klemmu að bjóða þeim efnisleg gæði á borð við þau sem hér um ræðir, enda má hæglega túlka höfnun á góðu boði sem dónaskap. „Glík skulu gjöld gjöfum,“ segir í Hávamálum og er óþarft að fjölyrða um merkingu þeirra orða. Kjörnir fulltrúar verða að stíga varlega til jarðar þegar efnislegum gæðum er haldið að þeim, svo mikið er vízt. Það skiptir nefnilega ekki öllu máli hver ásetningur gefandans er. Heiðarleiki þiggjandans skiptir ekki heldur máli. Það sem skiptir meginmáli er að störf kjörinna fulltrúa séu hafin yfir allan vafa. Og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Að lokum vil ég óska Samherja og öllu því góða fólki sem fyrirtækinu tengist til hamingju með glæsileg skip. Megi gæfan fylgja þeim!

Höfundur er fyrrverandi þingmaður Pírata

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó