NTC

Samfélagsstríð

Samfélagsstríð

Hrafndís Bára Einarsdóttir skrifar       

     Þegar horft er yfir völlinn má sjá allskonar fólk í misjöfnu ástandi. Í þessu stríði sem fram fer á nýslegnum túnfæti hins siðaða samfélags er fólk misjafnlega vel í stakk búið. Einhverjir standa aftast með klár og kokk, færir í flestan sjó að þeir segja, en benda á að við séum öll í þessu saman.

Það er ekki eftir neinu að bíða. Nú etja þeir á foraðið vopn- og skólausum mönnum, því einhver þarf að fara fyrstur. ,,Drífðu þig gæskur, í nafni samfélagsins, við komum rétt á eftir”.

   Og um völlinn dreifðan liggja fallnir félagar. Gagnslausar sálir í mikilsvirtu stríði um betra líf. Afgamalt fólk og fatlaðir sem engu skila hvort eð er. Vítakvaldar fylgjur fíknitamdra manna sem hafa löngu fyrirgert rétti sínum til baráttu. Lúslatir bótaþjófar og lappaspyrður. Liggið bara kyrr á meðan við ríðum fram völlinn og föngum keflin!

Þar sem herinn hleypur í hringi, án nokkurs sýnilegs mótherja, má sjá hvernig liðsmenn verða ringlaðir og snúast loks hver gegn öðrum. Í botnlausum, bitlausum bardaga um betra líf virðist enginn vita hver heldur á keflinu eða hvort það sé yfirhöfuð úti á þessum velli.

Inni í deserthöllu undir hárri bjargarskriðu sitja verklitlir menn og mála kefli.     

Höfundur skipar 3. sæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi við Alþingiskosningarnar 25. september næstkomandi


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Finna má fleiri greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum með því að smella hér.

Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI