Miðvikudaginn 7. mars fór Stóra upplestrarkeppnin fram í Kvosinni, Menntaskólanum á Akureyri í 18. sinn. Það eru nemendur 7. bekkja grunnskóla bæjarins sem taka þátt í keppninni ár hvert. Upphafsdagur Stóru upplestrarkeppninnar er á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Fram að lokakeppni leggja nemendur og kennarar áherslu á að æfa upplestur, vanda framburð og huga vel að áherslum, túlkun og framkomu í ræðustóli.
Að venju voru nemendur sér og skólum sínum til mikils sóma þennan dag og dómarar hafa ekki verið öfundsverðir af því hlutskipti sínu að velja einn fremur öðrum í verðlaunasæti. Eins og áður var það Ingibjörg Einarsdóttir sem var formaður dómnefndar en hún er einn af upphafsmönnum keppninnar sem fór fyrst fram í Hafnarfirði fyrir tuttugu og tveimur árum. Salka Sverrisdóttir, nemandi í Naustaskóla, bar sigur úr býtum. Sara Mjöll Jóhannsdóttir, nemandi í Lundarskóla hreppti 2. sætið og Arnfríður Kría Jóhannsdóttir, nemandi í Brekkuskóla hafnaði í 3. sæti.
Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskólans á Akureyri en samspilshópur úr skólanum lék m.a. stef úr Stjörnustríði eftir John Williams.
UMMÆLI