SAk fékk veglega peningagjöf frá Samherja

Læknarnir og hjartasérfræðingarnir Torfi Jónasson og Gunnar Þór Gunnarsson tóku við gjöfinni fyrir hönd sjúkrahússins. Mynd: Samherji.is.

Björg EA 7 var formlega nefnd við hátíðlega athöfn á togarabryggjunni á Akureyri síðastliðinn laugardag. Af því tilefni gaf Samherji Sjúkrahúsinu á Akureyri veglega peningagjöf sem nota á til að undirbúa það að koma upp hjartaþræðingu við sjúkrahúsið.

Björg EA 7 er nýjasta skip Samherja. „Endurnýjun skipaflota Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa er stórt skref í þá átt að festa Eyjafjarðarsvæðið í sessi sem eitt öflugasta útgerðar- og fiskvinnslusvæði landsins. Útgerðarfélag Akureyringa er nú ein tæknivæddasta fiskvinnsla landsins og framkvæmdir við nýja hátæknifiskvinnslu eru hafnar á Dalvík. Slíkar vinnslur þurfa öflug skip og hafa verður í huga að oft eru veiðisvæðin langt frá Eyjafirði og veðurfarið oft erfitt. Slíkt skip liggur hér við landfestar,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í ræðu sinni við athöfnina.

Gjöf til SAK til að undirbúa að setja upp hjartaþræðingu

Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, afhenti fyrir hönd félagsins, Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) peningagjöf í tilefni dagsins. Kristján sagði við það tækifæri að Samherji hefði oft verið í þeirri aðstöðu að geta lagt fram peninga til samfélagsins á ýmsum tímamótum eins og þessum.

„Í framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri til ársins 2021 er sett fram það metnaðarfulla markmið að koma upp hjartaþræðingu við sjúkrahúsið. Undirbúningur þessa viðamikla verkefnis er í gangi og kallar á mikla fjármuni. Við höfum ákveðið á þessum tímamótum að færa Sjúkrahúsinu á Akureyri tíu milljónir króna að gjöf til að koma verkefninu af stað. Mér er það líka sönn ánægja að tilkynna það að til viðbótar mun Samherji færa Sjúkrahúsinu á Akureyri 25 milljónir króna að gjöf þegar tækin sem í verkefnið þarf verða pöntuð. Það er alveg ljóst að við höfum hæft fólk til að ljúka þessu metnaðarfulla verkefni farsællega og koma upp hjartaþræðingu við Sjúkrahúsið á Akureyri. Það er okkar og annarra að sjá til þess að framhaldið verði farsælt,“ sagði Kristján.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó