Guðmundur Gunnarsson, fyrrum bæjarstjóri Ísafjarðar og fjölmiðlamaður, segir að þegar hann hafi verið að hefja störf í fréttamennsku á Akureyri hafi honum verið sagt að koma sér í mjúkinn hjá Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra útgerðarfyrirtækisins Samherja, til þess að eiga séns í nýja starfinu.
Guðmundur starfaði sem frétta- og dagskrárgerðarmaður fyrir RÚV um nokkurra ára skeið. Hann segir á Twitter síðu sinni í dag að hann hafi fengið ráðleggingar um að koma sér í mjúkinn hjá Þorsteini Má frá reynslumestu fréttamönnunum á Akureyri.
„Þegar ég byrjaði í fréttamennsku á Akureyri var mér sagt að ef ég ætlaði að eiga einhvern séns í nýja djobbinu þá yrði ég að koma mér í mjúkinn hjá Þorsteini Má. Þetta var fyrir 15 árum og heilræðin komu frá reynslumestu fréttamönnunum á svæðinu,“ skrifar Guðmundur á Twitter.
Samherji hefur hafið sýningar á vefþáttum sem eru ætlaðir sem svar við fréttaflutningi RÚV um málefni fyrirtækisins í Namibíu. Blaðamannafélag Íslands hefur fordæmt aðferðir Samherja.
„Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir furðu sinni á tilraunum útgerðarfélagsins Samherja til þess að gera fréttaflutning af málefnum fyrirtækisins tortryggilegan og fordæmir þær aðferðir sem beitt er til þess. Þær aðferðir eru ekki sæmandi fyrirtækinu og því mikilvæga hlutverki sem það gegnir í íslensku atvinnulífi, hlutverk sem því hefur verið falið af lýðræðislegum stofnunum samfélagsins. Það er einmitt það hlutverk sem gerir ítarlega og gagnrýna umfjöllun um starfsemi þess algerlega nauðsynlega,“ segir í ályktun frá Blaðamannafélagi Íslands.
UMMÆLI