Sagnalist segir sögu John G. Kassos

Sagnalist segir sögu John G. Kassos

Sagnalist – skráning og miðlun leggur þessa dagana lokahönd á tvo þætti í hlaðvarpsþáttaröðinni Leyndardómar Hlíðarfjalls. Þar er fylgst með rannsóknum Varðveislumanna minjanna á dvöl setuliðsins í Eyjafirði á stríðsárunum. Í nýju þáttunum tveimur segir frá John G. Kassos, bandarískum flugmanni sem dvaldist á Melgerðismelum sumarið 1942. Í ágúst verða 80 ár liðin frá því að Kassos fórst með orrustuvél ameríska flughersins á Melunum.

Sagan um flugslysið hörmulega í Eyjafirði í ágúst 1942 hefur alla tíð verið sveipuð leynd. Í gegnum árin hafa spurningar vaknað um flugmanninn unga og orsök slyssins en fátt verið um svör. Hingað til hefur reynst erfitt að afla skriflegra heimilda og þá liggja ljósmyndir ekki á lausu. Smám saman gleymist sagan og sífellt færri kannast við John Kassos og slysið á Melunum. Sagnalist, í samstarfi við Grenndargralið,hefur rannsakað málið um nokkurt skeið. Þættirnir eru að miklu leyti byggðir á áður óbirtum heimildum. Rannsóknir Varðveislumanna á Melgerðismelum varpa þannig nýju ljósi á málið auk þess sem Sagnalist styðst við heimildir frá fjölskyldu John Kassos í Bandaríkjunum. Ekki er ólíklegt að John George Kassos standi andspænis Íslendingum nú í fyrsta skipti í 80 ár í gegnum meðfylgjandi mynd sem Grenndargralið birtir með leyfi Kassos-fjölskyldunnar.

Sagnalist freistar þess að svipta hulunni af John Kassos og vélinni hans P-39 Airacobra. Hægt verður að hlusta á afraksturinn í Leyndardómum Hlíðarfjalls – Kassos á allra næstu dögum. Sagnalist hefur sett saman nokkrar söguvörður úr þáttunum. Undir hljómar Kassos Theme sem kemur úr smiðju Sagnalistar. Til að hlusta skal smella hér.

Heimild: Grenndargralið.

Sambíó

UMMÆLI