Ágúst Þór Brynjarsson, 25 ára tónlistarmaður búsettur á Akureyri, gefur út sitt fyrsta lag 18. október næstkomandi. Lagið heitir Með þig á heilanum og er samið af Fannari Frey Magnússyni.
Ágúst segir að undanfarnir mánuðir hafi verið ótrúlega skemmtilegir eftir að hann hætti í 8 til 4 vinnunni sinni til þess að elta drauminn um að verða tónlistarmaður.
„Ég hætti í vinnunni minni til að geta elt drauminn þegar ég fékk boð um að taka að mér að vera söngvari Stuðlabandsins og söng ég í sumar á öllum stærstu útihátíðum landsins, Lopapeysan, Kótilettan og þjóðhátíð, bæði með Stuðlabands mönnum og einnig Færibandinu frá Akureyri, sú hljómsveit sem ég var upprunalega í,“ segir Ágúst.
Lagið Með þig á heilanum er fyrsta lag Ágústar en fleiri lög ásamt plötu eru á leiðinni. Ágúst segist vera ótrúlega spenntur fyrir komandi mánuðum.
„Að gefa út mína eigin tónlist hefur alltaf verið markmiðið og mér líður eins og það sé fullkominn tími fyrir þann part af mínum tónlistar ferli eftir að hafa verið í ball bransanum síðustu 3 árin eða þegar ég ákvað að hætta í fótbolta 21 árs til að geta farið full on í að verða tónlistarmaður.“
„Ég hef verið ótrúlega heppinn með að fá það tækifæri að koma inn í Stuðlabandið á meðan Magnús Kjartan söngvari bandsins glímir við sín veikindi og hefur það verið frábær stökkpallur fyrir mig. Ég hef alltaf verið með það hugarfar að það er enginn að fara hringja í mig af fyrra bragði og því er ég duglegur að hringja, senda skilaboð, kynna mig og koma mér á framfæri, ég hef allavega aldrei tapað á því að hringja eða senda póst, versta sem gerist er að ég er á sama stað og ég var á.“
UMMÆLI