Sævar segir gervigras vera framtíðina á Akureyri

Sævar segir gervigras vera framtíðina á Akureyri

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, segir að gervigras sé framtíðin í fótboltaiðkun á Akureyri. Sævar birti mynd af knattspyrnusvæði KA á Twitter í gær þar sem allt var fullt af snjó.

„Fjórtán dagar í fyrsta heimaleik. Alveg sama hvað mönnum finnst þá er gervigrasið framtíðin á Akureyri. Ekki nema ca 15 cm af snjó sem kom í nótt,“ skrifaði Sævar á Twitter.

KA menn hefja leik í Bestu deildinni í knattspyrnu miðvikudaginn 20. apríl næstkomandi. Þá fær liðið Leikni Reykjavík í heimsókn. Leikurinn verður spilaður á gervigrasvellinum á Dalvík en KA spilaði einnig fyrstu heimaleiki sína þar á síðasta tímabili.

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, segist vonast til þess að liðið þurfi ekkert að spila á Greifavellinum í sumar í viðtali við Fótbolta.net.

„Ég held að það sé nokkuð ljóst að við byrjum mótið á Dalvíkurvelli. Ég veit það svo sem ekki alveg. Ég sá að það var byrjað að grafa upp á KA svæðinu – ég held að það verði einhver seinkun á því,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, í viðtali við Fótbolta.net á laugardag.

„Við áttum að vera komnir með gras þar fyrir fyrsta leik en kannski ekki þannig að það yrði tilbúið til að spila leik þar. En um leið og þú ert kominn með gras þá er hægt að æfa. Við erum með slaka æfingaaðstöðu þannig að því fyrr sem grasið kemur því betra er það fyrir okkur. Ég held að núna séu menn að gæla við að við getum spilað fyrsta heimaleikinn okkar á móti FH 11. maí.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó