Sælkeramatur heima með nýju fyrirtæki í veitingaþjónustu

Sælkeramatur heima með nýju fyrirtæki í veitingaþjónustu

Nýtt veitingafyrirtæki, Matlifun, opnar á næstunni á Akureyri.  Fyrirtækið mun selja veitingar fyrir viðskiptavini til að elda heima. ,,Við sjáum um að útbúa máltíðirnar, þá tekur viðskiptavinurinn við og klárar eldamennskuna með lágmarks fyrirhöfn.“

Það eru hjónin Sveinn Hólmkelsson og Jóhanna Hildur Ágústsdóttir sem standa að fyrirtækinu en þau eru þaulreynd í veitingabransanum bæði hérlendis og erlendis til margra ára og menntuð í faginu. 

„Hugmyndin  er sú að gefa frekari möguleika á fjölbreyttari matarupplifun heima fyrir með lágmarks fyrirhöfn. Hugmyndin hefur verið í dvala nógu lengi og nú fannst okkur vera tíminn til að demba okkur af stað,“ segir Jóhanna í samtali við Kaffid.is.

Langaði að gera eitthvað nýtt sem er byggt frá grunni í heimabænum

,,Við höfum sankað að okkur reynslu og fróðleik í gegnum tíðina og langaði mjög að byrja með fyrirtækjarekstur  þar sem við gætum nýtt reynsluna og fróðleikinn til að þjónusta heimamenn. Okkur lýst vel á þá veitingastaði sem eru starfandi hér á Akureyri , svo að okkur langaði að gera eitthvað sem er nýtt og byggt frá grunni hér heima,“ segja Jóhanna Hildur og Sveinn.

Fjölbreyttir réttir verða á boðstólnum.

Fjölbreyttir réttir í bland við sælkeravörur og stóra drauma


Ýmis áform eru á teikniborðinu hjá Matlifun þar sem ætlunin er að fara áður ótroðnar slóðir á Akureyri. „Eftir áramót áformum við taka upp fjölbreyttari rétti og bæta við vel völdum sælkeravörum. Við munum byrja í tímabundnu leiguhúsnæði og munu vörurnar að öllum líkindum verða keyrðar út á Akureyrarsvæðinu. Fyrst um sinn munum við fara rólega af stað en við höfum stóra drauma fyrir framtíðarhúsnæðið,“ segir Jóhanna og hvetur alla matgæðinga til að hafa samband þegar fyrirtækið fer af stað og láta í sér heyra hvað skuli vera í matinn!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó