NTC

Sæapar í blöðum frá Jónasi og Huld

Sæapar í blöðum frá Jónasi og Huld

Grenndargralið rakst nýlega á grein í blaði þar sem rifjuð var upp leikfangahugmynd bandarísks uppfinningmanns að nafni Harold Von Braunhut frá sjötta áratugnum. Von Braunhut setti svokallaða sæapa (sea monkeys) á markað árið 1957 og var þeim ætlað að höfða sérstaklega til barna. Það sem vakti athygli við þessa nýju vöru en kom fólki jafnframt spánskt fyrir sjónir voru loforð um að með réttri meðhöndlun myndu sæaparnir lifna við (instant life). Rúsínan í pylsuendanum var að sæaparnir áttu að líkjast mannfólki.

Innifalið í kaupunum var plastílát og tvö bréf sem innihéldu duft. Samkvæmt leiðbeiningum átti að fylla ílátið af vatni og blanda innihaldi annars bréfsins saman við. Var það gert til að hreinsa vatnið. Að sólarhring liðnum átti vatnið að vera orðið svo tandurhreint að hægt væri að hella úr seinna bréfinu. Það innihélt sæapaegg. Í kjölfarið átti bókstaflega að færast líf í leik barnanna og litlir, manngerðir sæapar að birtast í vatninu.

Auglýsingar um þennan litla, heimatilbúna „sjávardýragarð“ voru birtar í vinsælum teiknimyndablöðum þessa tíma og í mörg ár eftir 1957. Auglýsingarnar voru lifandi og sýndu – að því er virtist – hamingjusamar, persónugerðar fígúrur í fiskabúri. Grenndargralið man vel eftir slíkum auglýsingum í hasarmyndablöðum í Bókabúðum Jónasar og Huld á sjöunda og áttunda áratugnum og hversu mikið aðdráttarafl þessar litríku auglýsingar höfðu. Já, Grenndargralið man en hafði ekki alltaf skilning á því hvað verið var að auglýsa. Skiljanlega kannski.

Þó vissulega hafi meintir sæapar bærst um í vatninu eftir að leiðbeiningum var fylgt, líktust þeir með engu móti fyrirmyndunum í fyrrnefndum auglýsingum. Vonbrigðin voru því oftar en ekki mikil hjá þeim sem reiknuðu með að eignast syndandi lífsförunaut í mannslíki. En hvað var þarna raunverulega á ferðinni? Jú, um var að ræða örsmá krabbadýr af ættbálki tálknfætlna, svokallaðir saltkefar (Artemia salina)Von Braunhut vissi að egg saltkefa þyldu það að þorna og ferðast á milli staða í umbúðum án þess að verða fyrir skemmdum. Innihald fyrra bréfsins var þannig til þess fallið að blekkja neytendur. Þar var sannarlega ekki um hreinsiefni að ræða heldur litarefni sem gerði saltkefana sýnilegri í vatninu.

Af saltkefum í seinni tíð er það að segja að þeir hafa mikið verið notaðir sem fiskeldisfóður þar sem þeir eru taldir góðir prótíngjafar.

Heimildir:

Grenndargralið

Jón Már Halldórsson. (2006, 19. apríl). Hvernig dýr eru sæapar? Vísindavefurinn. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5827

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó