SA Víkingar unnu 3:2 sigur í dag gegn spænska liðinu Txuri Urdin í lokaleik sínum í C-riðli 2. umferðar Evrópubikarsins í Riga í dag. SA Víkingar, sem jafnframt eru íslandsmeistarar í íshokki luku keppni í þriðja sæti riðilsins með 3 stig en það eru liðin Donbass frá Úkraínu og Kurbads Riga frá Lettlandi sem munu berjast um efsta sæti riðilsins síðar í dag.
SA vann alla þrjá leiki sína í 1. umferð keppninnar í Búlgaríu fyrr í mánuðinum en þetta er jafnframt þeirra fyrsta Evrópukeppni. Aldrei hefur íslenskt lið í íshokki náð jafn langt í keppninni og SA og því um sögulegt afrek að ræða. UMFK Esja lék í sömu keppni fyrir ári og hafði þá eitt stig upp úr sínum þremur leikjum.
Í leiknum í dag kom Hafþór Sigrúnarson SA yfir í öðrum leikhluta. Juan Munoz jafnaði metin fyrir Txuri Urdin undir lok annars leikhluta og staðan því 1:1. Jussi Sipponen kom SA í 2:1 í upphafi þriðja leikhluta og Jóhann Leifsson tvöfaldaði forystu SA, fimmtán mínútum fyrir leikslok. Martins Jakovleves skoraði fyrir Spán fimm mínútur fyrir leikslok en lengra komust liðsmenn Txuri Urdin ekki og lokatölur því 3:2 fyrir SA.
Þetta er sögulegur árangur í íshokki á Íslandi og fyrir Skautafélag Akureyrar. Til hamingju SA-Víkingar!
Sjá einnig:
SA vann riðilinn í Evrópukeppninni – Sögulegt afrek í íshokkí á Íslandi
UMMÆLI