Reykjavíkurleikarnir í listhlaupi fóru fram í Laugardalnum um helgina. SA mætti til leiks með vaskt lið tilbúið í átök helgarinnar og má segja að keppendur hafi náð alveg ótrúlegum árangri.
Þar sem Íslandsmeistaramótið sem fara átti fram í nóvember féll niður vegna Covid 19 ákvað Skautasamband Íslands að Íslandsmeistaramótið yrði keyrt samhliða Reykjavíkurleikunum og því ljóst að nýir Íslandsmeistarar yrðu krýndir í lok mótsins.
Gull og silfur í Advanced Novice flokki
Freydís Jóna Jing var krýndur Íslandsmeistari í Advanced Novice flokki og Sædís Heba Guðmundsdóttir lenti í 2. sæti. Báðar eru þær frá Skautafélagi Akureyrar. Bronsið fékk svo Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni. Þess má geta að mótið var frumraun Sædísar Hebu í þessum keppnisflokki.
Íslandsmeistaratitill í Junior-flokki
Júlía Rós, einnig frá SA, hreppti Íslandsmeistaratitilinn í Junior flokki þetta árið. Ellefu stiga forskot hennar eftir fyrri dag keppninnar lagði grunninn að glæsilegum sigri. Prógrammið hennar var að stærstum hluta á plúsum frá dómurunum og lauk hún keppni eftir stutta prógrammið efst með 26.21 í tæknistig og 45,87 stig samanlagt sem er persónulegt met hjá henni.
Aldís Kara íslandsmeistari í senior flokki í fyrsta sinn
Síðasti keppandi dagsins var Aldís Kara Bergsdóttir úr SA. Töluverð eftirvænting var eftir að sjá hana spreyta sig í senior flokki eftir tvö velgengnisár í Junior flokki. Hún lauk keppni eftir stutta prógrammið á nýju Íslandsmeti með 22.53 í tæknistig og 40.93 stig samanlagt.
Aldís hlaut einnig Úrslitaverðlaun RIG (Best Results) en þau eru veitt stigahæsta skautara í efsta flokki á mótinu. Aldís Kara setti Íslandsmet í sínum flokki, bæði í stuttu og frjálsu prógrammi og bætti þannig met frá árunum 2016 og 2018.
UMMÆLI