Rut Hallgrímsdóttir sýnir í Saga FotograficaRut Hallgrímsdóttir, ljósmyndari

Rut Hallgrímsdóttir sýnir í Saga Fotografica

Ljósmyndarinn Rut Hallgrímsdóttir opnar sýningu í Saga Fotografica safninu á Siglufirði 17. júní. Elstu myndirnar á sýningunni eru frá 1985 en þær nýjustu teknar á þessu ári.

Rut fæddist á Seltjarnarnesi árið 1951. Hún stundaði ljósmyndanám í Bandaríkjunum 1978 og 1979 og hjá Sigurgeiri Sigurjónssyni í Reykjavík á árunum 1982 til 1986.

Hún opnaði eigin ljósmyndastofu í Reykjavík árið 1988, Ljósmyndir Rutar. Árið 2017 varð Silja Rut Thorlacius, ljósmyndari, meðeigandi og heitir stofan nú Ljósmyndir Rutar og Silju.

Rut hefur aðallega fengist við portrett ljósmyndun og ávallt haft að leiðarljósi að ná sem bestu sambandi við fólkið sem situr fyrir.  

Rut gaf út ljósmyndabókina Rauðisandur árið 2011, en hún heillaðist af þeim einstaka stað og myndaði af og til í 20 ár. Rut hefur setið í stjórn og prófnefnd Ljósmyndarafélags Íslands til fjölda ára.

Einkasýningar Rutar:

Rauðisandur, Ólafshús Patreksfirði, 2011.

Ungt fólk í góðum málum, Hans Petersen, 1995.

Samsýningar:

Augnablik, Nýlistasafnið, 1985.

Kvinlige fotografer i Norden, Osló, 1988.

Ljósmyndarafélag Íslands, Ráðhús Reykjavíkur, 1992.

Ljósmyndarafélag Íslands, Að lýsa flöt, Gerðarsafn, 1996.

UM SAGA FOTOGRAFICA

Hjónin Baldvin Einarsson og Ingibjörg Sigurjónsdóttir opnuðu ljósmyndasögusafnið Saga Fotografica á Siglufirði 17. júní árið 2013.

Tilgangur safnsins er varðveisla á tækjum til ljósmyndunar og ljósmyndavinnslu frá ýmsum tímum, sýning þeirra og kynning, auk þess sem staðið hefur verið fyrir kynningu á sögu ljósmyndunar og mismunandi aðferðum við ljósmyndavinnslu, sem og sýningum á myndverkum.

Hjónin eru bæði úr Reykjavík, þar sem þau eiga ljósmyndavöru- og þjónustufyrirtækið Beco. Þau tóku ástfóstri við Siglufjörð fyrir all mörgum árum, eignuðust hús í bænum og síðar annað – Vetrarbraut 17 – þar sem Saga Fotografica er til húsa.

„Við höfum starfað við að þjónusta ljósmyndara og ljósmyndaiðnaðinn í rúma fjóra áratugi og erum með áráttu fyrir því að safna búnaði og ýmsu öðru sem tengist ljósmyndurum á Íslandi; höfum t.d. safnað verkfærum þeirra frá fyrstu tíð til dagsins í dag og vegna starfsins hafa okkur hlotnast margar góðar gjafir. Á seinni árum hefur gamalt fólk, sem við höfum þjónustað lengi, jafnvel komið með hluti til okkar vegna þess að þeir voru ekki notaðir lengur og fannst þeir eiga heima í Beco. Þannig hafa ýmsar gersemar komist í okkar vörslu,“ segir Baldvin Einarsson.

Opnunarsýning safnsins árið 2013 var á verkum Vigfúsar Sigurgeirssonar, þess kunna ljósmyndara, gömul meistaraverk sem tekin voru á Siglufirði. Margir hafa komið við sögu síðan, meðal annarra Ragnar Axelsson – RAX – sem sýndi margverðlaunaðar ljósmyndir frá Grænlandi sumarið 2019.

Baldvin Einarsson ávarpar gesti þegar Saga Fotografica var opnað 17. júní 2013.

UMMÆLI