Rukka bílastæðagjöld á Akureyrarflugvelli

Rukka bílastæðagjöld á Akureyrarflugvelli

Um næstu mánaðarmót mun Isavia byrja að rukka bílastæðagjöld við Akureyrarflugvöll. Í auglýsingu Isavia í Dagskránni segir að nýtt bílastæðakerfi með aðgangsstýringu sem les bílnúmer verði tekin í notkun á bílastæðum á Akureyrarflugvelli. Einnig stendur til að hefja rukkun á Egilstaðaflugvelli.

Fyrstu 15 mínúturnar á hverjum sólarhring verða fríar en síðan leggst á 350 króna gjald fyrir hvern klukkutíma. Verð fyrir fyrstu 7 dagana er 1750 krónur á sólarhring eftir 7 daga lækkar verðið niður í 1350 krónur á dag og eftir 14 daga lækkar það niður í 1200 krónur á dag.

Isavia innanlandsflugvellir sjá um rekstur Akureyrarflugvallar ásamt því að reka Egilstaðaflugvöll og Reykjavíkurflugvöll. Það vekur athygli að einungis sé stefnt að því að innheimta bílastæðagjöldin á Akureyri og Egilsstöðum.

Sigrún Björk Jakobsdóttir framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla segir í samtali við RÚV að þó að Reykjavíkurflugvöllur sé ekki með núna standi til að rukka þar líka síðar meir.

„Við höfum verið að bíða eftir, eða skoða, frekari uppbyggingu og breytingar á Reykjavíkurflugvelli – og erum í rauninni bara að bíða eftir þeim niðurstöðum. En það eru svo sannarlega áform okkar að taka þetta upp á Reykjavíkurflugvelli líka,“ segir Sigrún á vef RÚV.

„Þetta finnst mér ekki ganga annað hvort er rukkað á öllum innanlands stæðum sem Isavia er með eða ekki. Af hverju á að byrja á landsbyggðunum og svo kannski einhverntímann í borginni?“ skrifar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, á Facebook.

HVERNIG ER GREITT FYRIR STÆÐI?

  1. Þú keyrir inn á stæðið og myndavélakerfið tekur mynd af bílnúmerinu.
  2. Við brottför er keyrt út af stæðinu og myndavél tekur aftur mynd af bílnúmerinu.
  3. Ef þú ert með reikning hjá Autopay og skráðar kortaupplýsingar þarftu ekkert að gera þar sem skuldfært er sjálfvirkt af kortinu.
  4. Ef þú ert ekki með reikning og skráð kort hjá Autopay þarftu að fara hér inn og borga stöðugjaldið.
  5. Ef ekki er greitt fyrir stæðið 48 klst. frá útkeyrslu berst reikningur í heimabankann þinn að viðbættu 1.490 kr. þjónustugjaldi.

Nánari upplýsingar má finna á vef ISAVIA hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó