Í dag hefur rignt á Akureyri í fyrsta sinn í töluverðan tíma. Á vef Akureyri.net segir að ekki hafi rignt í bænum að ráði í heilan mánuð, eða frá 14. júní síðastliðnum.
Þetta er staðfest í úttekt frá Veðurstofunni og þar segir enn fremur að úrkoma síðustu tuttugu daga hafi verið 0,0 millimetrar. Akureyringar hafa furðað sig á rigningunni í dag og mikið hefur verið grínast á Facebook-hópnum Geggjað veður á Akureyri.
Sjá einnig: Gera grín að túlkun Akureyringa á veðrinu: „Bíllinn bara bráðnaður í þessum Akureyrar hita“
„Ég þori ekki út. Virðist vera einhver bleyta að detta niður af himnum. Alveg viss um að utanbæjarfólk ber ábyrgð á þessu. Hef heyrt höfuðborgarbúa tala um þessa bleytu. Er hún alveg örugg?“ skrifar einn notandi í hópnum. „Hef heyrt að bæjarstjórnin hafi fengið verktaka til að kæla malbikið,“ svarar annar.
Rigningin er þó sennilega kærkominn enda var gróður víða farinn að skrælna í bænum og á dögunum kviknaði sinueldur í gróðri á austurbakka Glerár.
Sjá einnig: Gróðureldar á Akureyri
Veðurstofa Íslands spáir sólskini í bænum aftur á morgun en gera má ráð fyrir einhverri rigningu á föstudag og snemma á laugardag áður en að sólin fer svo að skína aftur.
UMMÆLI