Richard Eirikur Taehtinen nýr deildarforseti Sálfræðideildar Háskólans á Akureyri

Richard Eirikur Taehtinen nýr deildarforseti Sálfræðideildar Háskólans á Akureyri

Richard Eirikur Taehtinen hefur hafið störf sem nýr deildarforseti Sálfræðideildar Háskólans á Akureyri. Richard tók formlega við hlutverkinu 1. janúar af fráfarandi deildarforseta, Árna Gunnari Ásgeirssyni, dósent við deildina. Deildarforsetar eru skipaðir til tveggja ára í senn þar sem allt starfsfólk deildarinnar getur boðið sig fram í hlutverkið og svo er kosið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskólanum.

Hlutverk deildarforseta er afar fjölbreytt. Það felur í sér að stjórna daglegum rekstri deildarinnar, umsjón með áætlunum, yfirsýn kennsluáætlana og rannsókna ásamt fleiru sem fellur til. Ég tel mikilvægt að deildarforseti styðji við starfsfólk og stúdenta, sé virkur talsmaður deildarinnar og leggi til við stefnumörkun og langtímaáætlanir,“ segir Richard á vef HA.

Richard hefur sérhæft sig í rannsóknum sem lúta að íþróttasálfræði, þá sérstaklega andlegri heilsu og frammistöðu. „Ég hef unnið með íþróttafólki og fleirum bæði sem þjálfari og sálfræðingur og sú reynsla felur í sér mikið af mannlegum samskiptum, sem ég tel að muni nýtast í starfi mínu sem deildarstjóri. Þó svo að staða deildarstjóra sé aðeins utan míns þægindaramma þá hef ég gaman af áskorunum. Ég geri mér grein fyrir að ég þurfi að læra margt en ég sé þetta sem mikið tækifæri til að eflast enn frekar og ég vona að mín reynsla muni koma til góða í þessu hlutverki,“ segir Richard en nánar er rætt við hann á vef Háskólans, unak.is.


Sambíó

UMMÆLI

Sambíó