NTC

Reynslumiklir skipstjórar samstíga í land eftir 22 ára samvinnu

Reynslumiklir skipstjórar samstíga í land eftir 22 ára samvinnu

Skipstjórarnir á Kaldbak EA 1, þeir Angantýr Arnar Árnason og Sigtryggur Gíslason, hafa látið af störfum vegna aldurs. Báðir eiga þeir að baki langt og farsælt starf hjá Samherja og Útgerðarfélagi Akureyringa.

Sigtryggur hefur verið hjá félögunum í 36 ár en Arnar í 30 ár. Þeir hafa starfað saman sem skipstjórar í 22 ár, fyrst á Björgvin EA 311 og síðan á Kaldbak EA 1.

Fer vel á því að fara í land á sama tíma

„Þetta hefur verið afskaplega farsælt og aldrei hefur kastast í kekki á milli okkar, þótt við séum líklega um margt ólíkir. Auðvitað höfum við af og til verið ósammála en alltaf komist að sameiginlegri niðurstöðu. Eiginkonan segir stundum í gamni að ég tali líklega meira við Sigtrygg í inniverum en sig, ég sé alltaf að undirbúa næsta túr og þurfi þess vegna sífellt að taka stöðuna. Þrátt fyrir að stýra sömu skipunum allan þennan tíma höfum við aðeins verið saman í einni veiðiferð. Það var árið 2009 á Björgvin EA í Barentshafi, sá túr var 

Spáð í tækin í brúnni

nokkuð strembinn, sérstaklega veðurfarslega séð. Þessi langa samvinna undirstrikar klárlega að samstarfið hefur verið gott og farsælt og það fer bara vel á því að við stökkvum í land á sama tíma,“ segir Arnar þegar hann er spurður um samstarfið.

Framsýni og áræðni

„Ég er öllu rólegri en Arnar, hann er nokkuð ákafari en ég á margan hátt,“ segir Sigtryggur. „Þetta er engu að síður fínasta blanda sem sést best á rúmlega tveggja áratuga nánu samstarfi, sem er síður en svo sjálfgefið. Inn í þetta allt saman spilar svo samvinnan við þá frændur Kristján Vilhelmsson og Þorstein Má Baldvinsson í gegnum tíðina. Þeir hafa alltaf hlustað á okkar tillögur og tekið fullt mark á þeim. Framsýni og áræðni eru líklega orðin sem koma upp í hugann þegar 

„Gamli“ Kaldbakur

samskiptin við þá eru gerð upp. Vissulega hefur maður ávallt þurft að færa rök fyrir sínum sjónarmiðum en niðurstaðan hefur alltaf verið sameiginleg og það er aðal atriðið,“ segir Sigtryggur.

„Samherji er eins og stór samheldin fjölskylda, þegar eitthvað hefur bjátað á hefur stuðningurinn verið hundrað prósent, ekki bara frá yfirstjórninni heldur öllum innan fyrirtækisins. Þetta er einstakt og er síður en svo sjálfgefið,“ bætir Arnar við.

Einkenni góðs sjómanns

Eðli málsins samkvæmt hafa þeir félagar unnið með mörgum í gegnum tíðina. Talið berst að því hvað einkenni góðan sjómann.

„Þetta er um margt flókin spurning, svarið getur bæði verið stutt og langt ef út í það er farið. Sjómennska snýst um liðsheild og vaktin þarf að vinna sem einn maður til að ná árangri.

Sigtryggur í símanum í brúnni

Sjómennska hefur tekið miklum breytingum á þessum áratugum, sérstaklega varðandi tækni, aðbúnað og öryggimál. Sjómaðurinn þarf auðvitað að hafa áhuga á starfinu, vera samviskusamur og virkur.

Okkar lán er að hafa unnið með mörgum frábærum sjómönnum, sumir hafa staldrað stutt við en aðrir hafa fylgt okkur ansi lengi. Í mörgum tilvikum hefur skapast góð og einlæg vinátta,“ segir Sigtryggur og Arnar samsinnir.

Bylting í íslenskri útgerðarsögu

Kaldbakur EA 1, nýr ísfisktogari Útgerðarfélags Akureyringa kom til Akureyrar í mars 2017 og kom skipið í stað togara með sama nafni sem þjónað hafði ÚA síðan 1974. Systurskip Kaldbaks eru Björg EA 7 og Björgúlfur EA 312. Þeir félagar Angantýr Arnar og Sigtryggur tóku virkan þátt í hönnun nýju skipanna, sem smíðuð voru í Tyrklandi.

Kaldbakur er vel búið skip á allan hátt

„Smíði þessara skipa var í raun bylting í íslenskri útgerðarsögu og ég furða mig stundum á því hvers vegna ekki fleiri skip eru með sambærilegt skrokklag. Stöðugleiki skipanna er mikill og þau fara vel með áhafnirnar. Allur aðbúnaður er einstaklega góður, bæði hvað varðar vistarverur og vinnurými. Við hönnun skipanna var meðal annars leitað til væntanlegra áhafna, sem er ekki alltaf raunin. Innan Samherja er til staðar mikil þekking á mörgum sviðum, sem kom sér vel ´við smíðina. Kaldbakur er sérlega gott skip og sömu sögu hafa áhafnir systurskipanna að segja,“ segir Sigtryggur.

Reynslan mikilvæg þrátt fyrir tækniframfarir

Arnar í brú Kaldbaks

Brúin í Kaldbak minnir helst á fljótandi tölvuver. Tækniframfarirnar hafa verið gríðarlegar á þeim tíma sem Angantýr og Sigtryggur hafa verið til sjós. Angantýr Arnar er fyrri til svars.

„Já, heldur betur, breytingarnar eru í raun ótrúlegar. Ef ég ætti að nefna eitt tæki sem olli straumhvörfum, þá er það klárlega staðsetningartækið. Þegar ég byrjaði á Dalborginni var eitt loran C staðsetningartæki sem víxlaði tölunum ótt og títt. Síðan þróaðist tæknin og núna segir GPS tæknin okkur nákvæmlega hvar við erum hverju sinni. Með hjálp þessarar tækni er mögulegt að fara aftur á nákvæmlega sama punktinn. Samt sem áður er það nú svo að reynslan hefur mikið að segja í sjómennskunni, geta lesið í samspil náttúrunnar, svo sem hvar og hvenær sé líklegt að fiskur gangi, hvernig botninn er á veiðislóð, hitastig sjávar og svo framvegis.

Ég efast reyndar um að gervigreindin leysi skipstjórann af hólmi, ef við hugsum til næstu ára. Þessir ungu menn sem eru núna að stíga sín fyrstu skref í brúnni búa við allt annan veruleika en við gerðum á sínum tíma, það er ábyggilegt. Samskiptatæknin er líka allt önnur. Í byrjun 

Kaldbakur EA er glæsilegt skip. Fiskvinnsluhús ÚA í baksýn

var talað við fjölskylduna í gegnum talstöð en í dag erum við í góðu netsambandi með tilheyrandi þægindum. Sumir eru jafnvel í fjarnámi meðfram sjómennskunni,“ segir Arnar.

Hausarnir enn í lagi

En hvað tekur við, er líklegt að reynsluboltarnir hringi ótt og títt í arftakana ?

„Nei, það má helst ekki gerast. Auðvitað væri gaman að fá símtal af og til frá þeim með óskum um álit eða góð ráð. Eigum við ekki að segja að við verðum með kveikt á símunum, alltaf klárir í spjall. Sem betur fer eru hausarnir á okkur í lagi og þar leynast mögulega einhver verðmæti sem hægt er að nýta. Við bindum enda á farsælt samstarf með því að hoppa báðir í land á sama tíma. Við erum sáttir og glaðir og síðast en ekki síst þakklátir, “ segja skipstjórarnir Angantýr Arnar Árnason og Sigtryggur Gíslason.

Frétt og myndir: Samherji.is

Sambíó

UMMÆLI