Reyndu þetta ekki, Akureyri

Reyndu þetta ekki, Akureyri

Ragnar Þór Pétursson skrifar

Rétt eftir aldamót skók hneykslismál íslensku þjóðina. Morgunblaðið lagði heila opnu undir málið undir fyrirsögninni „Samsæri gegn neytendum.“ Tilefnið var að Samkeppnisráð hafði ákveðið að sekta helstu mógúla á íslenskum grænmetis- og ávaxtamarkaði fyrir ólöglegt verðsamráð. Eftirminnilegasti þáttur þess var óformlegur leynifundur tveggja forstjóra á þeim hádramatíska örlagastað Öskjuhlíðinni. Minnisblað annars forstjórans eftir þann fund þótti færa sönnur á að fyrirtækjunum væri það fullljóst að þau væru að stunda verulega vafasama starfsemi sem kallaði á óformlegt samráð.

Síðan þá hefur íslenska þjóðin aldrei fyllilega losnað við þá tilfinningu að verið sé að fara á bak við hana og margt bendir til þess að hin ósýnilega hönd markaðarins á Íslandi hafi misst samkeppnisfingurinn. Bónus og Krónan hafa árum saman stundað þann dans að einni krónu munar á verði, bensínið hækkar ævinlega í takt og margt bendir til þess að samkeppni sé einkasport litlu aðilanna á íslenskum markaði en samvinnuhugsjónin lifi góðu lífi meðal hinna stærri.

Íslensk sveitarfélög stunda þetta líka og þar er gildandi samkomulag um að þau megi ekki undir neinum kringumstæðum vera í samkeppni um starfsfólk. Það er ein þeirra aðferða sem þau hafa beitt til þess að halda launum niðri (enda eru sveitarfélög versti launagreiðandi á Íslandi svo töluverðu munar). Hægt og rólega hefur þetta leitt til þess að stærri sveitarfélögin eru orðin einhverskonar Wolt á íslenskum vinnumarkaði. Stór hluti starfsfólks eru námsmenn eða nýbúar sem líta á starf hjá sveitarfélagi sem einhverskonar tilfallandi ígrip eða þrep inn á alvöru vinnumarkað. Þau störf sem krefjast stöðugleika og festu í mannahaldi, eins og kennsla og stjórnun skóla, liggja undir skemmdum.

Nú eru átök vegna þess.

Fyrir skömmu gerðist það að kennarar á Akureyri buðu sig fram til að fara í næstu hrinu verkfalla. Það kemur ekki á óvart. Akureyri hefur oft verið óvenju ömurlegur vinnuveitandi þegar kemur að kennurum.

Bæjarstjórnin þar virðist farin að ókyrrast því hún sendi frá sér undarlega yfirlýsingu um að hún hefði enga aðkomu að kjaradeilu kennara. Málið væri í höndum Sambandsins samkvæmt samkomulagi þar um. Samkomulagið er dæmalaus lestur. Það hljómar eins og minnisblað frá glæpasamtökum. Miklum hefndum er hótað öllum þeim sem ekki hlýða undanbragðalaust því sem Sambandið vill gera. Það er næstum því þannig að maður fari að trúa því að Akureyri sé fórnarlamb eða ótrúlega bláeygt í trausti sínu til Sambandsins.

Nema … að þetta er allt saman skrökvulygi.

Samkomulagið er hannað til þess að veita sveitarstjórnarfólki falskt skjól. Þetta er gjörningur af sama tagi og algengur var fyrir nokkrum árum þar sem ógæfufólk var ítrekað skráð fyrir fyrirtækjum fjármálaglæpona. Sömu lukkuriddararnir settu hvert fyrirtækið á fætur öðru á hausinn en voru aldrei persónulega ábyrgir því allt var skráð á kennitölu fólks sem ekkert hafði með reksturinn að gera en þáði greiðslu fyrir að vera bókhaldslegir eigendur.

Svo römm er þörf sveitarstjórnarmanna fyrir skjól að þeir reyna meira að segja að fela ábyrgð sína þótt þeir stjórni Sambandinu, apparatinu sem þeir hafa framselt ábyrgð á kjarasamningum til. Þannig svaraði sjálfur formaður Sambandsins, Heiða Björg, spurningu um félagsdómsmálið í Silfrinu fyrir fáeinum dögum:

„Varðandi kennaradeiluna, þá ákváðum við í stjórn Sambandsins, þar sem við sitjum nú reyndar þrjú, að láta ekki á þetta reyna vegna þess að við vorum vongóð um að ná samningum og það er auðvitað aldrei létt ákvörðun að fara í mál við starfsfólkið sitt. Auðvitað er þetta ekki beint ákvörðun stjórnar. Við erum með ákveðið batterí þarna. Það er Samninganefnd sveitarfélaga, því við erum auðvitað öll bara sveitarstjórnarfólk sem að sitjum í stjórn sambandsins en við berum vissulega ábyrgð á rammanum.“

Hugleiðum þetta aðeins: „Auðvitað er þetta ekki beint ákvörðun stjórnar. Við erum með ákveðið batterí þarna. Það er Samninganefnd sveitarfélaga…“

Þetta er auðvitað fráleit tilraun til að bægja sér undan ábyrgð. Enda flettist hratt ofan af lyginni þegar kanarífuglinn í pólitísku námunni, Einar borgarstjóri, stökk fram til að styðja formanninn:

„Mig langar að bregðast bara aðeins við því að ég sit með Heiðu í stjórn Sambandsins og mikil umræða hefur verið um þetta og alls ekki auðveld ákvörðun að fara í mál. Mikil umræða meðal sveitarstjóra. Mig langar að taka upp hanskann fyrir Heiðu hvað þetta varða að það er erfið ákvörðun að fara í mál við starfsfólk sitt og það var alltaf þessi von að það væru að nást samningar og það er mikilvægt að leysa málið frekar við samningaborðið en fyrir dómstólum. En eftir að þessar viðræður runnu út í sandinn eins og þær gerðu á dögunum þá var eindreginn vilji stjórnarinnar að gera það og sveitarstjórar standa saman að því.“

Einar er sannarlega hvorki sleipur stjórnmálamaður né klókur en það er þakkavert að hann er eins og grænmetismógúllinn sem skrifaði memóið um leynifundinn í Öskjuhlíðinni. Einar hefur nú ítrekað sýnt nákvæmlega hvernig fólkið innan Sambandsins vinnur og hvernig það hugsar um kennara. Fyrst með því að hæðast að kennurum á stórri samkomu og nú með því að blása burt skjólinu sem Heiða reyndi að byggja sér úr samninganefndinni. Stjórnin ákveður ekkert ein, hún gerir allt í nánu samtali við bæjarstjóra. Þar á meðal er auðvitað bæjarstjórinn á Akureyri sem nú þykist vera saklaus áhorfandi að öllu saman.

Akureyrarbær er aðili að deilunni og virkur þátttakandi í þeim ákvörðunum sem teknar eru. Hann getur beitt sér en hefur, samkvæmt orðum Einars, staðið með þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið hingað til. Akureyri þarf samt ekki að tilheyra klíkunni frekar en bærinn vill. Ef bærinn er ósáttur við aðferðafræði Sambandsins eða verður undir í hinu fundargerðalausa leynisamráði eru viðurlögin við því að fara sína eigin leið einfaldlega þau að umboðinu er skilað heim – þangað sem ábyrgðin hefur legið allan tímann.

Sjá einnig:

Sambíó
Sambíó