NTC

Reykjavíkurdætur á leið norður í tónleikaferðalag: „Fólk fyrir norðan kann að sletta úr klaufunum“

Reykjavíkurdætur á leið norður í tónleikaferðalag: „Fólk fyrir norðan kann að sletta úr klaufunum“

Hljómsveitin Reykjavíkurdætur er á leið norður í tónleikaferðalag. Sveitin heldur tónleika á Græna Hattinum á Akureyri föstudaginn 22. apríl og á Kaffi Rauðku á Siglufirði Laugardaginn 23. apríl.

Reykjavíkurdætur segjast vera fáránlega spenntar fyrir því að koma norður og ferðast innanlands. „Við erum allar að vinna í ólíkum verkefnum utan hljómsveitarinnar og eigum oft erfitt með að forgangsraða að hanga saman sem vinkonur en svona ferðir eru fullkomnar í það. Það er líka spáð geggjuðu veðri og bara fólk fyrir norðan kann að sletta úr klaufunum þannig við erum mjög, mjög spenntar.“

Þær hafa spilað tvisvar sinnum áður á Græna Hattinum en nokkur ár hafa liðið síðan að sveitin kom síðast til Akureyrar.

Við höfum tekið rosalegum breytingum sem hljómsveit síðan þá og höfum í rauninni ekkert haldið tónleika á Íslandi síðan þær breytingar urðu þannig það verður forvitnilegt að sjá hvernig Íslendingar taka í showið okkar eins og það er orðið. Græni hatturinn er náttúrulega goðsagnakenndur tónleikastaður á Íslandi og alveg einstakt að fá að spila þar. Við höfum hinsvegar aldrei spilað á Rauðku eða á Dalvík en höfum heyrt frábæra hluti og hlökkum mikið til,“ segja Reykjavíkurdætur í spjalli við Kaffið.

Sjá einnig: Ragga Rix hitar upp fyrir Reykjavíkurdætur:„Þær eru súper svalar“

„Tónleikana á Græna hattinum og Rauðku hugsum við sem sitjandi einlæga stemningu fyrir hlé og svo keyra upp partýið eftir hlé. Við ætlum að segja nokkrar vel valdar sögur á milli laga en við höfum gengið i gegnum ýmislegt á þessum 9 árum sem hljómsveitin hefur verið starfandi.“

Reykjavíkurdætur munu einnig halda fjölskyldutónleika á Dalvík laugardaginn 23. apríl klukkan 15.00 þar sem planið er að virkja gesti til að dansa og syngja með sveitinni.

„Við heyrðum af því að einhver kennari á Dalvík hafi látið krakka úr skólanum þar hlaupa 1.apríl með því að segja að við værum með tónleika í Bergi þann dag. Þannig bara svo það sé alveg á hreinu það er ekkert aprílgabb núna. Við munum mæta.“

Það má búast við því að það verði fullt af gestum fyrir norðan um helgina en Andrésar andar leikarnir fara fram í Hlíðarfjalli. Steiney Skúladóttir, ein af meðlimum Reykjavíkurdætra, æfði skíði þegar hún var lítil og hana hefur lengi dreymt um að komast á verðlaunapall á leikunum.

Það gekk ekki eftir en hún er víst að plotta að reyna að koma sér á pall núna um helgina. Við vonum bara að hún mæti samt á tónleikana líka,“ segja Reykjavíkurdætur.

Miðasala á tónleikana á Akureyri fer fram á Grænihatturinn.is og á tónleikana á Siglufirði yess.is.

Sambíó

UMMÆLI