Rektor segir HA þurfa að horfa til framtíðar, sama hvort verði af sameiningu eða ekkiLjósmynd: Háskólinn á Akureyri

Rektor segir HA þurfa að horfa til framtíðar, sama hvort verði af sameiningu eða ekki

Líkt og Kaffið hefur áður fjallað um var ályktun samþykkt á dögunum á háskólafundi Háskólans á Akureyri þess efnis að fallið verði frá áform­um um sam­ein­ingu Háskólans á Akureyri og Há­skól­ans á Bif­röst. Hafa forsvarsmenn sumra deilda innan Háskólans lýst því yfir að skýrsla samtalsteymis, sem skipað var af einstaklingum frá HA, Bifröst og utanaðkomandi ráðgjafa, um fýsileika hugsanlegrar sameiningar skólanna feli ekki í sér sannfærandi rök fyrir sameiningu og einkennist af slagorðum og áróðri. Ýmsum spurningum þurfi að svara áður en lengra sé haldið.

Skiljanlegar áhyggjur

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, ræddi við fréttaritara Kaffisins og segir efasemdir um sameiningu mjög skiljanlegar, sérstaklega í ljósi sterkrar stöðu Háskólans á Akureyri. Hann bendir á að 2024 sé metár hvað fjölda nemenda varðar og segir skólann hafa eflt sig virkilega sem stofnun undanfarin tíu ár. Þegar staða skólans er svona sterk segir Eyjólfur eðlilegt að áform um miklar breytingar, líkt og sameiningu við annan skóla, vekji spurningar á borð við „hvers vegna að breyta til ef allt er gott?“

Þar að auki viðurkennir Eyjólfur að sumt hefði mátt betur fara í vinnslu og kynningu fýsileikaskýrslunnar umræddu, sérstaklega hvað samskipti og upplýsingaflæði varðar. Hann segir það mistök að mikið af þeirri greiningarvinnu sem sameiningarnefnd gerði við vinnslu skýrslunnar komi hvergi fram í skýrslunni sjálfri.

Eyjólfur bendir á að það sem fram komi á háskólafundum sé ráðgefandi til háskólaráðs, sem sé æðsta vald skólans. Bæði fyrir og eftir að ályktunin var samþykkt á háskólafundi hafi háskólaráð ítarlega rætt málin, bæði innbyrðis sem og við aðra aðila innan háskólasamfélagsins. Aðspurður hvort einhverju þurfi að breyta í verkferlum tengdum sameiningarviðræðunum í ljósi efasemda leggur Eyjólfur áherslu á að bæta samskipti milli þeirra sem vinna beint að sameiningarviðræðum og öðrum meðlimum HA samfélagsins. Halda þurfi samtalinu áfram á opinskáan og gegnsæan hátt:

„Ég hugsa að mörgum hafi kannski fundist fýsileikakönnunin ekki svara þeim spurningum sem þau höfðu og töldu að það væri búið að svara því að það ætti að sameinast,“ segir Eyjólfur. Hann segir skýrsluna vissulega vera jákvæða og að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að skoða eigi frekar möguleikana á sameiningu. Þar að auki hafi stjórnsýslan fagnað niðurstöðunni og boðið fjármagn til áframhaldandi vinnu. Því sé mjög skiljanlegt að þau sem ekki hafi tekið þátt í þessu ferli finnist umræðan koma að einhverju leyti eins og þruma úr heiðskýru lofti.

Hugsanleg efling til að takast á við áskoranir framtíðarinnar

„En við verðum líka að horfa til framtíðar og við verðum líka að horfa til þeirra ytri aðstæðna sem við erum að glíma við,“ segir Eyjólfur. Þar minnist hann sérstaklega á fyrirhugaða fækkun háskóla á Íslandi og samkeppni við erlenda háskóla.

Eyjólfur bendir á að það sé enginn vafi á því að stjórnvöld hafi sýnt það í máli og verki að þau vilji fækka háskólum á Íslandi. Á því markmiði geti hver og einn haft sína skoðun, en meðan raunveruleikinn er sá þarf hver skóli að horfast í augu við hann og tryggja eigin stöðu samkvæmt því. Hann bendir á að kjósi Háskólinn á Akureyri að fara þá leið að sameinast Háskólanum á Bifröst séu stjórnvöld tilbúin til þess að styðja við bakið á þeim, meðal annars með stórum rannsóknarsjóð. Þar að auki hafi Háskólinn á Bifröst ákveðið að selja allt húsnæði sitt í Norðurárdal og halda starfsemi sinni áfram með öðrum hætti:

„Þetta eru bara alveg ný tækifæri. Við erum síðan með námsframboð sem er kennt með mjög svipuðum hætti, algjörlega áherslumunur á ákveðnum sviðum en mjög svipuðum tæknilegum hætti. Þá kemur upp sú spurning hvort við getum ekki gert bara eitthvað sniðugt saman og myndi það ekki efla okkur í þeirri samkeppni sem er framundan.

Sú samkeppni segir Eyjólfur brýna ástæðu fyrir því að samtal náist um framtíðarsýn Háskólans á Akureyri. Vísar hann þá til þess að ungt fólk í dag standi frammi fyrir virkilega áhugaverðum valkostum um hið ýmsa námsframboð í gegnum netið frá háskólum víðsvegar um heim og að HA verði að eflast enn frekar sem stofnun til þess að standast slíka samkeppni. Þar að auki sé mikilvægt að vinna gegn því ójafnvægi sem landsbyggðirnar búa við hvað varðar nýtingu á nýrri tækni á hinum ýmsu sviðum. Besta leiðin til þess sé með öflugum rannsóknum á Doktorsstigi.

Dugar ekki að segja bara nei

Eyjólfur segir að hugsanleg sameining HA og Háskólans á Bifröst sé enn á sínum allra fyrstu stigum. Fýsileikaskýrslan sem nýverið kom út hafi einungis verið ætlað að athuga hvort að sameining þessara skóla sé yfir höfuð möguleg og sé heilmikið af vinnu sem þurfi að eiga sér stað áður en nokkurs konar ákvörðun sé tekin. Hins vegar sé vert að taka fram að sameining sé ein af ótal leiðum sem hægt sé að fara í að takast á við áðurnefndar áskoranir framtíðarinnar. Einhverja leið þurfi að fara og sé því ekki ákjósanlegt að falla frá sameiningu án þess að hafa áætlun um hvernig eigi að taka á þessum áskorunum í staðinn:

„Kannski er þetta ein leið, samtalið við Bifröst, kannski sýnir þetta okkur eina lausn á þessum vandamálum, en það er ekki eina leiðin og þess vegna þurfum við bara að taka samtalið og sannfærast um hvað sé rétta leiðin fyrir okkur.

Eyjólfur bætir við:

„Háskólinn á Akureyri verður að styrkjast og stækka til að geta þjónustað samfélög utan Höfuðborgarsvæðis af auknum krafti næstu 25 árin. Til þess að það gangi eftir þurfum við meiri samvinnu við fleiri stofnanir og sameining við stofnun eins og Háskólann á Bifröst gæti verið lykilþáttur í að ná þessu markmiði. Þannig ég sé alveg möguleika á því að það styðji við þetta heildarmarkmið og þess vegna tel ég það svo mikilvægt að skoða það svona ítarlega og eiga þetta samtal alveg til enda þannig við getum þá svarað því nákvæmlega á þeim tímapunkti af hverju eða afhverju ekki [að sameinast.] Ef það er af hverju þá er það skýrt út frá því að ýta undir að búa til sterkari stofnun sem að tekur þátt í þessu íslenska samfélagi með áherslu utan Höfuðborgarsvæðis. Ef það er ekki þá verður að svara hvað annað við ætlum að gera til þess að ná sama markmiði.

Vill sjálfur frekari upplýsingar

Aðspurður hvort að hann vilji sjálfur taka afstöðu til sameiningar segir Eyjólfur að það séu tvær spurningar sem hann vilji sjálfur fá svarað áður en hann geti tekið afstöðu með eða gegn sameiningu.

Í fyrsta lagi segist Eyjólfur þurfa að sjá fjármögnun á verkefninu, bæði sameiningarferlinu sjálfu og rannsóknarsjóði til þrigjja til fimm ára. Hann segist hafa lagt á það mikla áherslu innanhúss að fjármálaáætlun ríkisstjórnar sem lögð verði fram í apríl verði að endurspegla þennan vilja stjórnvalda til þess að af þessu verkefni verði. Ekki dugi að fjármagna sameiningu, heldur þurfi að tryggja fjármagn fyrir nýja stofnun fram í tímann ef sameining á að fara í gegn.

Einnig þarf Eyjólfur að fá það á hreint að sú stofnun sem til verður muni raunverulega hafa bolmagn til þess að sinna skyldum Háskólans á Akureyri gagnvart landsbyggðunum. Til þess að tryggja það þurfi í öllum samningum við bæði ríkisstjórn og Háskólann á Bifröst að taka skýrt fram að þjónusta til fólks utan höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal hvað rannsóknartengt nám varðar, verði áfram helsta hlutverk stofnunarinnar.

Að lokum vill Eyjólfur leggja sérstaka áherslu á að það hefur á engum tímapunkti verið tekin ákvörðun um sameiningu. Það hafi verið tekin ákvörðun um að fara í sameiningarviðræður, sem enn geti endað í niðurstöðu um að sameining sé af eða á.

En hvað með kaffið?

Á léttari nótum þá endaði viðtalið líkt og önnur viðtöl á Kaffinu, en Eyjólfur var spurður hvernig hann tæki kaffið sitt. Svart og sykurlaust kaffi verður nær alltaf fyrir valinu hjá Eyjólfi, en þegar líða fer að helgi finnst honum gott að fá sér Swiss Mocca.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó