Rekstur Akureyrarbæjar jákvæður um 436 milljónir

Rekstur Akureyrarbæjar jákvæður um 436 milljónir

Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram í bæjarráði í dag. Rekstur samstæðunnar gekk vel og nokkru betur en gert hafði verið ráð fyrir. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 659 milljóna króna halla en niðurstaðan var jákvæð um 436 milljón króna. Verðbólga og lífeyrisskuldbindingar settu mark sitt á uppgjörið. Sjóðstreymið var betra en árið áður. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sagði að loknum fundi bæjarráðs í gærmorgun: „Rekstrarumhverfi sveitarfélaga hefur verið erfitt síðustu árin en við hjá Akureyrarbæ höldum sjó og skilum rúmlega milljarði króna betri niðurstöðu en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Ég hlýt að vera sátt við þá niðurstöðu í mjög krefjandi aðstæðum. Verðbólgan hefur til að mynda gert okkur, eins og öllum öðrum, erfitt fyrir en þó erum við hátt í hálfum milljarði réttum megin við núllið.“

„Samstæða Akureyrarbæjar, þ.e. Aðalsjóður, Fasteignir Akureyrarbæjar, Eignasjóður gatna og Umhverfismiðstöð ásamt fyrirtækjum í eigu bæjarins, s.s. Félagslegum íbúðum, Strætisvögnum Akureyrar, Hlíðarfjalli, Hafnasamlagi Norðurlands og Norðurorku, var rekin með 436 milljóna króna afgangi. Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar gekk því betur en á horfðist því í fjárhagsáætlun hafði verið gert ráð fyrir 653 milljóna króna neikvæðri niðurstöðu. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um rúma 2,9 milljarða en áætlun hafði gert ráð fyrir tæplega 2,6 milljarða króna rekstrarafgangi. Meginskýringar á bættri afkomu eru hærri skatttekjur af útsvari og Jöfnunarsjóði ásamt auknum þjónustutekjum. Aukin verðbólga á liðnu ári setti hins vegar svip á rekstrargjöldin og voru fjármagnsgjöld og verðbætur um 2,5 milljarðar. Lífeyrisskuldbindingar urðu einnig hærri en gert var ráð fyrir og námu alls 1,2 milljörðum sem var 605 milljónum króna umfram áætlun,“ segir í tilkynningu bæjarins.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður hann til umfjöllunar í bæjarstjórn Akureyrar 16. apríl og 7. maí nk.

Smelltu hér til að lesa ársreikning Akureyrarbæjar 2023.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó