Orange Project teygir nú þjónustu sína út um allan heim með samningi við alþjóðlega fyrirtækið Regus um uppbyggingu skrifstofuhótela á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi undir merkjum Regus.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Ísland verður þar með hluti að neti Regus sem teygir sig út um allan heim með yfir 3000 starfsstöðvum í 900 borgum, 120 löndum og setustofum á 800 flugvöllum auk þess sem viðskiptavinir Regus hafa aðgang að 18 milljónum heitra WiFi-reita um víða veröld, meðal annars á hótelum og flugvöllum.
„Regus er með þrjár milljónir viðskiptavina og nú opnast þeim aðgangur að skrifstofuhúsnæði á Íslandi og íslenskir viðskiptavinir Regus fá að sama skapi greiðan aðgang að aðstöðu Regus út um allan heim,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur fram að Orange Project hefur í á þriðja ár rekið skrifstofuhótel á Íslandi og boðið upp á skrifstofur, fundarsali og hópvinnurými í ýmsum stærðum
Viðskiptavinum Regus og Orange býðst áskrift að þjónustu Regus og með því að greiða fast mánaðargjald hafa þeir aðgang að allri þjónustu Regus hvar sem er í heiminum.
„Það er okkur mikið fagnaðarefni að vera orðin hluti af alþjóðlegu neti Regus,“ segir Tómas Hilmar Ragnarz, framkvæmdastjóri og eigandi Orange Project í tilkynningunni. „Fyrst og fremst mun þetta gera okkur kleyft að bæta og treysta þjónustuna við viðskiptavini okkar enn frekar auk þess sem erlendum fyrirtækjum opnast greiðari aðgangur að íslensku viðskiptalífi og sveigjanlegum skrifstofum hérna.“
Með samningnum við Regus hefur Orange Projcet einnig tryggt sér réttinn til þess að opna skrifstofuhótel undir merkjum Regus í Færeyjum og Grænlandi. „Við sjáum fyrir okkur að Ísland verði með þessu tengipunktur Ameríku og annarra Evrópulanda við norðurheimskautsslóðirnar og heiminn handan þeirra.“
Regus er með um þrjár milljónir viðskiptavina út um allan heim, þar á meðal stórfyrirtæki eins og Google og Apple og Tómas segist sjá fyrir sér að það geti auðgað íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf að landið sé komið á heimskortið hjá Regus.
„Á Íslandi er mikill fjöldi af hámenntuðu og sérhæfðu fólki og við sjáum fyrir okkur að erlend fyrirtæki, sem vilji tengjast Íslandi og hagnýta sér legu landsins, geti opnað hér útibú og nýtt sér um leið mannauðinn sem er hér fyrir,“ segir Tómas í tilkynningunni.
UMMÆLI