Rannsóknarnefnd samgönguslysa birti í dag skýrslu sína um flugslysið sem varð við Hlíðarfjallsveg í ágúst 2013. Slysið má samkvæmt skýrslunni að mestu rekja til mannlegra mistaka.
Þrír menn voru í flugvélinni þegar hún brotlenti. Tveir menn létu lífið, sjúkraflutningamaður og flugstjóri. Vélin var á leið frá Reykjavík til Akureyrar en fékk leyfi til að taka útsýnisflug yfir bæinn. Flugstjórinn vildi fljúga yfir akstursbrautina við Hlíðarfjallsveg þar sem viðburður var í gangi. Flugið var framkvæmt í lítilli hæð. Leið flugvélarinnar bendir til að flugstjóri hafi áætlað að fljúga yfir akstursbrautina í beinni línu. Til þess þurfti flugvélin að taka skarpa vinstri beygju í of lítilli hæð.
Rannsóknin leiddi í ljós að aðgerðin var ekki nægilega vel skipulögð og ekki í samræmi við verklag og vinnureglur. Beygjan var framkvæmd svo nálægt jörðu að ekki var hægt að leiðrétta mistökin áður en vélin brotlenti.
Það var því niðurstaða rannsóknarnefndar að mannlegi þátturinn hafi spilað stórt hlutverk í slysinu. Samstarf og skipulag flugstjórnar var ófullnægjandi. Það var krappa vinstri beygjan sem olli því að flugvélin hrapaði til jörðu.
UMMÆLI