Þær Andrea Hjálmsdóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir fá styrk úr minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar vegna rannsóknarinnar „Lífið á tímum kórónuveirunnar: Breytingar á fjölskyldulífi, atvinnu og ábyrgð“. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri.
Andrea Hjálmsdóttir er félagsfræðingur og lektor við hug- og félagsvísindasvið HA og Valgerður S. Bjarnadóttir er menntunarfræðingur og nýdoktor við hug- og félagsvísindasvið HA. Þær hlutu nýverið styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 úr minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar.
Rannsóknin snýr að lífi fjölskyldufólks á tímum COVID-19. Skerðingar á leik- og grunnskólastarfi, lokanir framhaldsskóla, háskóla og vinnustaða, auk hvers kyns skerðingar á þjónustu, hafa víðtæk áhrif á líf fólks og á það á ekki síst við um tilveru fjölskyldufólks. Miklar breytingar hafa orðið á heimilis- og atvinnulífi, sem mikilvægt er að öðlast skilning á.
Markmið rannsóknarinnar eru annars vegar að öðlast yfirsýn með því að kortleggja með dagbókarfærslum áhrif COVID-19 á daglegt líf barnafjölskyldna meðan faraldurinn stendur yfir og hins vegar að öðlast með viðtalsrannsókn dýpri skilning á upplifun og reynslu foreldra af áhrifum hans á samræmingu fjölskyldu og atvinnu.
UMMÆLI