NTC

Rannsaka samband heilsufarsáhrifa og loftmengunar frá skemmtiferðaskipum og nagladekkjum

Rannsaka samband heilsufarsáhrifa og loftmengunar frá skemmtiferðaskipum og nagladekkjum

Yvonne Höller, prófessor við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri, leiðir hóp rannsakenda frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands í rannsókn sem snýr að því að rannsaka samband heilsufarsáhrifa og loftmengunar frá skemmtiferðaskipum og nagladekkjum. Rannsóknin beinist að því að meta hvort mismunur á loftmengun á tilteknum svæðum innan Akureyrar komi fram í mun á sjúkdómseinkennum og heilsu almennt.  

Rannsóknin er samtarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Lada Zelinski sér um samhæfingu og gagnagreiningu og Ragnar Pétur Ólafsson og Lárus Steinþór Guðmundsson veita vísindalega ráðgjöf. Þá koma einnig margir Bachelor og Masters nemar við Háskólann á Akureyri að verkefninu.  

„Þó að loftmengun af náttúrulegum ástæðum eins og eldgosi sé nánast óumflýjanleg er að vissu marki hægt að koma í veg fyrir loftmengun af mannavöldum. Tvö stór dæmi um áhrifavalda loftmengunar sem mögulega væri hægt að minnka eru sjóflutningar og notkun nagladekkja. Sjóflutningar, þá sérstaklega umferð skemmtiferðaskipa eru helsta uppspretta loftmengunar í hafnarborgum og bæjum. Skemmtiferðaskip gefa frá sér mismunandi tegundir mengunarefna en helstu loftmengunarefni þeirra eru svifryk, köfnunarefnisoxíð og brennisteinstvíoxíð. Þar að auki skapa slæm veðurskilyrði á Norðurlöndunum meiri loftmengun af völdum svifryks því ísi lagðir vegir leiða til aukinnar notkunar á nagladekkjum,“ segir í tilkynningu.

Rannsakendur segja að Akureyri bjóði upp á kjöraðstæður til þess að rannsaka samanburð á sambandi heilsufarsáhrifa og loftmengunar frá skemmtiferðaskipum vegna þess að yfir sumartímann koma mörg skemmtiferðaskip til bæjarins og notkun nagladekkja fram yfir vetrarmánuðina er algeng.  

„Markmiðið er að fá að minnsta kosti 300 þátttakendur sem búa á mismunandi svæðum bæjarins. Við völdum Giljahverfi og Oddeyrarhverfi því Oddeyrarhverfi er á miðlægu svæði bæjarins, nálægt stórum umferðaræðum og þar sem skemmtiferðarskipin eru við höfn. En Giljahverfi er ofarlega í bænum og við teljum að loftgæðin þar ættu því að vera betri en á eyrinni. Við dreifðum auglýsingu á öll heimili þessara hverfa og sendum inn auglýsingu í Dagskrána. Þátttakendur fylla út spurningarlista á netinu þrisvar sinnum, þ.e. á þremur mismunandi tímabilum ársins (vor, sumar og snemma hausts). Á sama tíma mæla rannsakendur loftgæði á mismunandi svæðum bæjarins með loftgæðamæli,“ segir í tilkynningu.

Hér að neðan má sjá nánari upplýsingar fyrir þau sem vilja taka þátt í rannsókninni.

Sambíó

UMMÆLI