Rangt að vekja falskar vonir um nýtt lyf

Rangt að vekja falskar vonir um nýtt lyf

Í upphafi árs 1952 birtust fréttir þess efnis að von væri á nýju lyfi til landsins. Miklar vonir voru bundnar við lyfið í stríði gegn alvarlegum sjúkdómi sem hafði herjað á heimsbyggðina með hörmulegum afleiðingum. Almenningur sá fyrir endann á berklafaraldrinum á meðan læknar reyndu að stilla væntingum um virkni lyfsins í hóf. Í apríl 1952 var sagt frá því í Degi að fyrstu sjuklingarnir á Kristneshæli og Vífilsstöðum hefðu fengið hið nýja lyf, Rimifon.

Rimifon – nýja berklalyfið tekið í notkun í Kristneshæli

Rimifon, nýja berklalyfið sem mest hefur verið umtalað síðustu mánuðina, var tekið í notkun á Kristnesi nú nýlega og um svipað leyti á Vífilsstöðum. „Við erum rétt að byrja með þetta“, sagði Jónas Rafnar yfirlæknir á Kristnesi í viðtali við blaðið, „fengum smáskammt, handa 5—6 manns, en meira mun væntanlegt á næstunni. Og um árangur er að sjálfsögðu ekkert hægt að segja. Það eitt er víst, að lyfið er ekki skaðlegt ef það er tekið í hæfilegum skömmtum, en um áhrif þess á sjúkdóminn get ég ekkert sagt að svo stöddu. Fólk virðist vera ákaflega spennt að fá fregnir af því, sem vonlegt er, en rangt væri að vekja falskar vonir í brjóstum hinna sjúku.“

Ummæli erlendra lækna

Þessi ummæli yfirlæknisins hníga mjög í sömu átt og erlendra lækna, er rætt hafa þetta nýja lyf. Nokkrar vonir tengdar við það, en allt of snemma að fagna sigri. Bezt að búast við vonbrigðum, því miður. Einn kunnasti berklalæknir Dana, dr. Tage Hyge, yfirlæknir við berklahælið í Lyngby, sagði t.d. á þessa leið í viðtali við Berlingske Tidende í vikunni sem leið: „Rimifon er efni – töflur sem við vitum ekkert um ennþá. Fyrstu fregnir um lyf þetta bárust bingað frá Ameríku fyrir tveim mánuðum og síðan höfum við hér og fleiri berklahæli fengið nokkrar töflur til reynslu. Maður sér nú til hvað kemur út úr þessu.“

Þekkt þegar 1912

Sjálft efnið hefur verið þekkt síðan 1912, en tilraunir í berklarannsóknum eru nýjar. Rimifon drepur berklabakteríuna. Önnur kunn efni – Streptomycin og PAS – verka öðruvísi, en takmarkið er hið sama: að reyna að stöðva berklana. Fyrir liggur reynsla, m.a. í Bandaríkjunum og Sviss, snotur árangur að sjá á blaði, en enn er ekki hægt að byggja á honum að því marki, að unnt sé að segja að nýja lyfið sé betra en þau gömlu. Enn segir þessi danski yfirlæknir: „Gamli yfirmaðurinn minn, dr. Permin yfirlæknir, sagði eitt sinn við mig: „Maður getur gefið hvaða efni sem er út fyrir að vera berklalyf og náð mikilli frægð um hálfs árs skeið, því að það tekur svo langan tíma að sannreyna að efnið sé einskis nýtt.“ Dr. Permin hafði rétt fyrir sér. Ég lít með eftirvæntingu til nýja lyfsins Rimifon, en reynsla áranna hefur kennt mér varúð í þessum efnum. Versta, sem hægt er að gera gagnvart sjúklingum, er að vekja hjá þeim falskar vonir.

Rimifon bættist í hóp berklalyfjanna Streptomycin sem hafði verið í notkun í nokkur ár og PAS sem var nýrra af nálinni. Skemmst er frá því að segja að ekkert þessara lyfja markaði endalok berklafaraldursins. Þau hins vegar flýttu fyrir bata og áttu stóran þátt í að kveða niður berkladrauginn í lok sjötta áratugarins og í upphafi þess sjöunda.

Heimildir:

Grenndargralið.

Helgi Ingvarsson. (1953). Nýju berklalyfin. Reykjalundur, 7. árgangur(1), 30-31.

Rimifon – nýja berklalyfið tekið í notkun í Kristneshæli. (1952, 17. apríl). Dagur, bls. 1.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó