Rakel Hönnudóttir landsliðskona í knattspyrnu hefur samið við enska félagið Reading til loka næsta tímabils.
„Þetta kom upp fyrir svona tveimur vikum og mér leist strax mjög vel á,“ sagði Rakel, í samtali við mbl.is.
Rakel spilaði síðast með Limhamn Bunkeflo í Svíþjóð en áður hafði hún spilað með Breiðabliki og Þór/KA hér á Íslandi.
Með Limhamn Bunkeflo í Svíþjóð og átti Rakel stóran þátt í því að bjarga liðinu frá falli úr sænsku úrvalsdeildinni með fimm mörkum í síðustu sex leikjum tímabilsins.
Nokkur lið hafa barist um þjónustu Rakelar að undanförnu en hún ákvað að velja Reading.
„Það var gaman að fá smá athygli og að geta valið úr nokkrum liðum. Ég var með fyrirspurnir frá nokkrum löndum og gat aðeins valið, en mér fannst England mest spennandi. Ég er búin að fylgjast með þessari deild og hvernig hún hefur verið á uppleið. Mér hefur fundist þetta mjög spennandi í langan tíma og þegar þetta kom upp þá lagði ég áherslu á það við umboðsmanninn minn að þetta væri það sem mig langaði mest,“ sagði Rakel við mbl.is.
Reading er í fimmta sæti af ellefu liðum í ensku úrvalsdeildinni en keppni þar er fram á vor. Reading mætir Arsenal um helgina og Rakel gæti spilað sinn fyrsta leik þar ef leikheimild næst í gegn í tæka tíð.
#ReadingFCW would like to introduce you to our new Signing Rakel Hönnudóttir ✍️ #RoyalRakel pic.twitter.com/ECGx1Ns4PV
— Reading FC Women (@ReadingFCWomen) January 25, 2019
UMMÆLI