NTC

Rafvæðum enn frekar opinbera stjórnsýslu á Akureyri

Efla þarf rafvæðingu í opinberri stjórnsýslu á Akureyri. Nauðsynlegt er að íbúar geti með rafrænum hætti verið í sambandi við stjórnsýsluna og gegnt sem flestum erindum sínum. Heimasíða sveitarfélagsins þarf að verða betri, einfaldari og gagnvirkari og allar upplýsingar er varða íbúa þurfa að vera öruggar og aðgengilegar. Setja ætti af stað verkefni í þróun rafrænna samskipta með það að markmiði að flýta afgreiðslu mála. Íbúar ættu líka að geta fylgst með hvar mál þeirra standa. Slík lausn ætti að hafa aukið almannagildi og hefur mikla þýðingu fyrir sveitarfélagið. Líklegt er að til lengri tíma litið eftir einskiptis kostnað við innleiðingu náist fram aukin fjárhagsleg hagkvæmni með verkefninu og er það vel.

Með rafrænni stjórnsýslu er ekki átt við að á heimasíðu sveitarfélagsins séu að finna eyðublöð til útprentunar, sem undirrita þarf og póstsenda eða skanna og senda til Akureyrarbæjar. Eyðublöðin þarf að vera hægt að vista í tölvu notenda og þeir að eiga möguleika á að senda erindi sín gegnum netið með rafrænum skilríkjum. Þeir þurfa líka að geta séð hvar þau eru í ferlinu. Í mínum huga fellur rafræn stjórnsýsla að hagnýtingu upplýsingatækni í starfsemi hins opinbera. Rafræn stjórnsýsla á að veita einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum góða, skilvirka og hagkvæma þjónustu. Hún er einnig rafræn meðferð og afgreiðsla mála í stjórnsýslunni og veitir aðgengi að opinberum upplýsingum og þjónustu.

Samtalið við íbúana þarf að vera gagnvirkt og nauðsynlegt er fyrir sveitarfélagið að nýta samfélagsmiðla. Gæta þarf að persónuvernd, framsetningu svara og gagna á vefnum. Þrátt fyrir mikilvægi rafrænnar stjórnsýslu er ekki hægt að skorast undan því að eiga samskipti á fleiri vegu en í gegnum heimasíðu og tölvupóst.

Stóran hluta íbúanna má nálgast gegnum netmiðla og því skynsamlegt að leggja áherslu á tilkynningar til þeirra með auglýsingum í prentmiðlum og á heimasíðu Akureyrarbæjar. Undirritaður hefur trú á að með því að bæta við gagnvirku samtali, upplýsingum gegnum rafræna miðla þá nái stjórnsýsla sveitafélagsins betur til íbúa. Þeir ræða til dæmis ýmis mál gegnum Facebook, þar koma fram skoðanir og umræður sem allar skipta máli, til dæmis um snjómokstur í bænum, hraðahindranir og breytt skipulag innan hverfa svo eitthvað sé nefnt. Þessi umræða fer ekki fram gegnum heimasíður eða í bréfaskriftum manna á milli. Hún er hröð og margir kom að henni og hún er rafræn. Tökum skrefið þó að ýmislegt þurfi að varast og rafvæðum stjórnsýslu Akureyrarbæjar, ekki bara fyrir kerfið heldur fyrir íbúana.

Þórhallur Harðarson, 6. sæti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó