Rætt var um framtíðarskipulag Akureyrarvallar á bæjarstjórnarfundi í gær, 21. mars 2023. Fulltrúar minnihlutans segja það vera einkennandi fyrir framtaksleysi meirihlutans að ennþá hafi ekkert verið aðhafst vegna undirbúnings við uppbyggingu á svæði Akureyrarvallar.
„Úr því sem komið er eru allar líkur á að engar framkvæmdir hefjist á svæðinu á þessu kjörtímabili. Mikilvægt er að vinna án frekari tafa að nýtingu þessa verðmæta byggingarlands, sem gæti skipt bæði atvinnu- og mannlíf miku máli. Þá ætti að skoða alvarlega þann valkost að setja Glerárgötuna í stokk miðsvæðis, með framkvæmd á kostnaðargreiningu sem og viðræðum við Vegagerðina,“ segir í bókun sem að Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista settu fram.
Í bókun meirihlutans segir að mikil uppbygging sé að fara af stað á miðbæjarsvæðinu og að í starfsáætlun skipulagsráðs sé gert ráð fyrir því að farið verði í hugmyndasamkeppni um Akureyrarvöll.
„Vinna við það hefur dregist, meðal annars vegna manneklu og mikilla anna í öðrum verkefnum. Fyrir liggur að halda kynningarfund um skipulagsmál á vormánuðum og opna fyrir betra Ísland þar sem íbúum gefst þá kostur á að koma á framfæri hugmyndum sínum að skilmálum fyrir hugmyndasamkeppnina,“ segir í bókun meirihlutans.
Jón Hjaltason sem er óháður í bæjarstjórn segir að áður en lengra sé haldið með málið eigi að gera almenna skoðanakönnun á meðal Akureyringa og spurja hvort þeir vilji að íþróttasvæðið við Hólabraut verði nýtt til þéttingar byggðar eða varðveitt sem almennt útivistarsvæði.
UMMÆLI