Gæludýr.is

Ræktar skarfakál í Grímsey

Ræktar skarfakál í Grímsey

Mayflor Perez Cajes er forsprakki verkefnisins Skarfakál Arctic Circle sem tók þátt í Vaxtarými, viðskiptahraðli Norðanáttar, sem hófst 3. október 2022 og stóð yfir í átta vikur. Mayflor segir að Skarfakál muni efla atvinnulífið og fjölga atvinnutækifærum í Grímsey, nýta vannýtta auðlind, stuðla að nýsköpun og auka framleiðslu af nýju hráefni í matvælaiðnaði á Íslandi.

„Ég mun rækta skarfakál úti Grímsey. Fyrstu tvö árin mun ég sækja skarfakál hjá björgunum á eynni, safna fræjum og rækta upp það sem ég sæki. Á meðan ég er að bíða eftir uppskerunni sem er að vaxa, mun ég framleiða pestó, krydd, fæðubótarefni og gera hreint skarfakál hæft til sölu. Ég er þegar komin með nokkara aðila sem eru að bíða eftir að vörurnar komi á markaðinn,“ segir Mayflor í spjalli við Kaffið.is um verkefnið.

Skarfakál vex víða meðfram ströndum Íslands. Íslendingar hafa frá fornu fari nýtt það öðrum strandjurtum fremur og eru heimildir til um neyslu þess víða um landið.

Lærði mikið af viðskiptahraðli Norðanáttar

„Hugmyndin að verkefninu kom út frá annarri hugmynd sem ég hafði haft í huga í dálítinn tíma. Sú hugmynd, sem snerist einnig um plöntur, var þó heldur of stór í sniðum fyrir mig eina að framkvæma. Þá fór ég að hugsa um skarfakálið sem vex villt um allt heima í Grímsey og var nýtt þar og víðar á landinu í gamla daga til að fyrirbyggja og lækna skyrbjúg. Það var svo ráðgjafi hjá Brothættum byggðum sem hvatti mig til þess að fara lengra með þá hugmynd,“ segir Mayflor.

Sjá einnig: Níu verkefni klára Vaxtarrými Norðanáttar

Hún byrjaði á verkefninu á síðasta ári þegar henni bauðst að taka þátt í viðskiptahraðli Norðanáttar og á dögunum hlaut hún styrk frá Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Hún segist hafa grætt mikið á viðskiptahraðli Norðanáttar.

Mayflor kynnti Skarfakál Arctic Circle á lokaviðburði Vaxtarýmis 24. nóvember síðastliðinn í Listasafni Akureyrar ásamt átta öðrum nýsköpunarteymum 

„Mér fannst ég öðlast þekkingu á viðskiptaheiminum, hvernig ferlið frá hugmynd að vöru virkar. Ég lærði að skipuleggja mig, nota ákveðna tækni sem er til staðar og að búa til viðskiptaáætlun. Ég lærði inn á hvernig markaðurinn virkar, að mynda tengslanet og fékk stuðning frá fagaðilum og mentorunum í hraðlinum,“ segir Mayflor.

Nú tekur við að rækta, rannsaka og þróa skarfakál. „Ég er þegar búin að þróa pestó og krydd. Ég sé fyrir mér að pesto og salat muni bara vera til sölu á sumrin en krydd og fæðubótaefni allt árið. Eftir rannsóknarvinnuna get ég stækkað við mig, ráðið starfsfólk og búið til betri vinnuaðstöðu. Ég mun þá vera fyrsta manneskjan sem er vitað til að rækti skarfakál á Íslandi og enn sem komið er eru engar vörur úr íslensku skarfakáli í verslunum.“

Vill að ríkið haldi áfram að „Glæða Grímsey“

Mayflor segir að það sé fullt af fólki í Grímsey með skemmtilegar hugmyndir sem tengjast því að styrkja byggðina. Ekki stendur til að framlengja samstarf Byggðastofnunar og Grímseyjar í verkefninu Glæðum Grímsey, sem er hluti af Brothættum byggðum. Verkefnið hófst árið 2016 og átti upphaflega að gilda til ársins 2020 en var svo framlengt til loka 2022.

Mayflor þykir það vera synd að samstarfið hafi ekki verið framlengt og segir að það sé nauðsynlegt að Brothættar byggðir taki Grímsey aftur inn.

„Þá er hægt að halda áfram að styrkja eitt af auðkennum Íslands. Ég hvet frumkvöðla um allt land og fólk sem tengist Grímsey að koma saman og hjálpa fólki eins og mér sem hafa hugmyndir til að byggja upp hér og styrkja samfélagið. Það er mikið í húfi, ekki bara hjá heimafólki heldur þjóðinni allri. Grímsey er spegilmynd af Íslandi og það þarf að styrkja svona merkilegan stað, höldum áfram að glæða Grímsey.“

Sambíó

UMMÆLI