Ráðgátan um ferðafélaga Simone de Beauvoir á Akureyri

Jean Paul Sartre og Simone de Beauvoir.

Hún hafði nýlega gefið út eina áhrifamestu bók 20. aldar þegar hún kom til Akureyrar. Bókin hét Le Deuxième Sexe (Hitt kynið) en í henni vakti umrædd kona athygli á kúgun kvenna. Hún kom út árið 1949. Bókin varð strax umdeild en hefur að sama skapi skipað sérstakan sess í kvennabaráttu og femínískum fræðum. Höfundur bókarinnar, Simone de Beauvoir (1908-1986) var franskur heimspekingur og rithöfundur sem hafði um skeið stundað nám við Sorbonne-háskólann í París.

Hann er af mörgum álitinn merkasti hugsuður 20. aldarinnar. Jean Paul Sartre (1905-1980) er höfundur hinnar svokölluðu tilvistarstefnu eða existensíalismans sem var ein helsta heimspekistefna aldarinnar. Hann var, rétt eins og Beauvoir, heimspekingur og rithöfundur. Árið 1964 hlaut Sartre bókmenntaverðlaun Nóbels. Hann afþakkaði pent af persónulegum ástæðum.

„Hin drungalega Akureyri“ eins og hún blasti við á fyrri hluta 20. aldar.

Simone de Beauvoir gaf út æviminningar sínar á sjöunda áratugnum (La force des choses). Þar segir hún frá eftirminnilegri tíu daga ferð sem hún og Sartre fóru til Íslands árið 1951. Koma þar m.a. við sögu tveir „huldumenn“ á Akureyri sem hittu frönsku maddömuna.

Eftir að hafa dvalist í Reykjavík um nokkurra daga skeið fóru að kvisast út sögur um að þau Simone og Jean-Paul myndu heimsækja höfuðstað Norðurlands. Dagblaðið Dagur á Akureyri birti m.a. frétt á forsíðu þar sem spurt var hvort Sartre og Beauvoir væru væntanleg til bæjarins. Sennilega hefur blaðið ekki fengið fregnir af komu þeirra til Akureyrar því frekari skrif urðu ekki um málið af hálfu blaðsins. Engum blöðum er þó um það að fletta að hin franska de Beauvoir kom til Akureyrar ásamt Sartre. Hér á eftir fer lausleg þýðing úr æviminningum  Simone de Beauvoir sem birtist í Dagblaðinu Vísi-DV árið 1984.

 „Við fórum í flugvél til hinnar drungalegu Akureyrar og þaðan fór ég með flugbáti eftir hinni yndislegu norðurströnd allt til lítillar hafnar sem er alveg nyrst á eynni. Einu ferðafélagar mínir voru tveir skeggjaðir strákar: „Við erum á puttaferðalagi kringum Ísland,” sögðu þeir mér.“

Hverjir voru hinir skeggjuðu strákar sem ferðuðust með Madame de Beauvoir á flugbáti frá Akureyri? Ítarlegri umfjöllun má finna á heimasíðu Grenndargralsins.

Brynjar Karl Óttarsson.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó