Perrast á bílastæði

Perrast á bílastæði

Stuttu fyrir jólin stóð ég í langri biðröð í Bónus með sneisafulla kerru. Þegar ég loksins átti að borga rann upp fyrir mér að veskið mitt væri enn á milli framsætanna í bílnum.

Ég afsakaði mig og tók sprettinn. Á útleið, með pirrað augnaráð biðraðarfólks í  bakinu, samdi ég í snarheitum skýra aðgerðaráætlun til að valda sem minnstum töfum:

Um leið og sjálfvirku dyrnar opnuðust út á bílastæðið myndi ég beina fjarstýringarlyklinum að bílnum, svipta upp hurðinni, renna mér leifursnöggt á hægri öxlinni yfir bílstjórasætið og hrifsa veskið úr hólfinu við gírstöngina.

Öll fyrstu stig þessarar áætlunar gengu upp, alveg þangað til að því kom að hremma veskið. Þá greip ég í tómt en fann framandi kvenmannshné nema við gagnaugað. Ég leit upp og sá tvö uppglennt augu, full af undrun og þó nokkurri skelfingu.

Nokkrum vikum síðar sagði vinur minn mér að hann kannaðist við hjónin sem eiga bifreið sem er nákvæmlega eins og bíllinn okkar Bryndísar. Dag einn fóru þau í Bónus. Hún beið úti í bíl en eiginmaðurinn skrapp inn til að versla.

Fljótlega dottaði hún undir hugljúfri jólatónlist en sagði það hafa verið afar ónotalegt að vakna upp með másandi sóknarprestinn á vinstra lærinu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó