Páskarnir eru í grunninn kristileg hátíð og í raun aðalhátíð þeirra. Jesús framkvæmdi sitt stærsta verk, að deyja fyrir syndir okkar. En fyrir almennan leikmann getur verið erfitt að skilja Páskana. Hvað átti sér stað og hvernig tengist það lífi okkar ár hvert? Hér útskýrum við, lauslega.
Pálmasunnudagur – Jesús reið inn á asna í Jerúsalem, pálmagreinar voru lagðar fyrir hann og honum fagnað. Í dag leggjum við kannski smá salt í innkeyrsluna og „fögnum“ lok vikunnar með venjulegum sunnudegi. Dymbilvika, vikan fyrir páska, hefst á þessum degi en dymbill hljómar eins og teiknimyndafíll.
Skírdagur – Hljómar eins og að það ætti að vera mikið um skírnir á þessum degi en svo er ekki. Þarna tók Jesús taktískan fótasnyrtingadag á lærisveinana. Þvoði alla óhreinu fæturna fyrir síðustu kvöldmáltíðina. Skír merkir hreinn eða tær og ekki var óhreinn fótur í húsinu eftir að Jesús hafði lokið sér af. Þetta er eiginlega bara laugardagur nema á fimmtudegi, margir í fríi en samt ekki allir.
Föstudagurinn langi – Stórhátíðardagur, eldrauður eins og blóð Krists þegar hann hékk á krossinum. Nú minnumst við kvala og dauða frelsarans. Fólk er eflaust ekki sárkvalið vegna þessa atburðar en þetta er samt mikill þjáningadagur enda þynnkan oft að hrjá marga. Nú eru páskarnir byrjaðir fyrir alvöru.
Venjulegur laugardagur – Úpps, páskarnir taka pásu. Ungmenni eru svolítið að fermast á þessum degi, annars er lítið að frétta. Hvað gerði Jesús á þessum degi? Lítið annað en að liggja í gröfinni og byggja upp lokaatriði sitt.
Páskadagur – Hann er risinn með rafmagnsgítar á lofti. Jesús er horfinn úr gröfinni. Genginn aftur. Þessi er vínrauður og fólk almennt séð í fríi. Dagur vellystinga, svokallaður páskaeggjadagur. Fólk er að hittast og borða lambalæri, reykja sígarettur út á palli og smakka á blóði Krists.
Annar í páskum – Framlenging á páskadegi. Þetta er eins og að halda upp á afmælið sitt fyrir fjölskylduna daginn eftir að það var haldið fyrir bekkjarfélagana. Fjörið er búið og þú þarft að haga þér. Páskunum fer að ljúka og fólk grætur almennt mest þennan dag, þó svo enginn hafi hangið á krossinum. Nú var Jesús bara birtast fólki þangað til á uppstigningardag; þegar hann reis upp til himna til þess að verða consigliere og hægri hönd Guð(föðurins).
Gleðilega páska og hærra, minn, Guð til þín!