Ósáttar við stöðu leikvallamála í HagahverfiLeikvöllurinn umræddi. Ljósmynd: Kaffið/RFJ

Ósáttar við stöðu leikvallamála í Hagahverfi

Hópspjall milli fimmtán mæðra, búsettra í Hagahverfi, ber nafnið „Helvítis tjörnin.“ Nafnið vísar til tjarnar sem staðsett er á horni Halldóruhaga og Nonnahaga. Mæðurnar stofnuðu upprunalega hópspjallið í þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir að tjörnin yrði byggð, þar sem þær töldu mikilvægara að nýta plássið undir góðan leikvöll. Eftir að tjörnin var svo byggð var sett yfir hana jafnvægisslá, sem mæðrunum þykir skapa óþarfa áhættu og segjast þær ósjaldan hafa séð börn detta þar ofan í og rennblotna.

Tjörnin umrædda. Ljósmynd: Kaffið/RFJ

Ein mæðrana sendi Kaffinu ábendingu um það sem hún kallar „þessa hryllilega ljótu tjörn“ og vakti athygli á stöðu leikvallamála í hverfinu. Einungis einn leikvöllur er í Hagahverfi og eru mæðurnar í hópspjallinu sammála um að hann sé óásættanlegur. Þær segja leikvöllinn hreinlega ómerkilegan og óspennandi fyrir börnin. Þær velta því fyrir sér hvort áhyggjur af byggingastíl og útliti hafi vegið þyngra í hönnunarferlinu heldur en skemmtanagildi og nothæfi. Í þessu samhengi minnast þær sérstaklega á lélegt aðgengi að rennibrautinni og hversu lágar og ofstrekktar rólurnar séu. Að þeirra sögn eru ungbarnarólan svo lág að jafnvel eins árs gamalt barn reki fæturna í jörðina þegar það rólar sér og að báðar rólurnar séu algjörlega gangslausar um leið og smá snjór leggist á jörð.

Eftirfarandi eru nokkur ummæli mæðranna sem birt eru hér með leyfi:

„Þessi eini leikvöllur í hverfinu er alveg glataður.“

„Ég myndi ekki heldur nenna að leika þarna ef ég væri 6 ára.“

„Mér finnst ég finna svo mikið fyrir því eftir að við fluttum úr Naustahverfi í Hagahverfi hvað það vantar almennilegan leikvöll.“

„Við förum aldrei á þennan leikvöll, við keyrum frekar í önnur hverfi til að komast á leikvelli.“

„Það eru börn í öllum hverfum. Börn vilja og þurfa að fá að leika sér úti og ef það er hvergi almennilegt leiksvæði fyrir þau, hvar leika þau sér þá? Nú á götunni!! Ég sé ekkert smá mikið af krökkum alltaf úti á götu að leika og fíflast, jafnvel með bolta!“

Netsprengja NTC
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó