NTC

Ósætti og uppsagnir innan íshokkíhreyfingarinnar vegna viðbragða ÍHÍ við meintu kynþáttaníði á Akureyri

Ósætti og uppsagnir innan íshokkíhreyfingarinnar vegna viðbragða ÍHÍ við meintu kynþáttaníði á Akureyri

Mikið ósætti ríkir innan íshokkíhreyfingarinnar á Íslandi vegna úrskurðar agadeildar Íshokkísambands Íslands er varðar meint rasísk ummæli sem leikmaður Skautafélags Akureyrar (SA) lét falla í garð leikmanns Skautafélags Reykjavíkur (SR) þegar liðin mættust í leik á Akureyri þann 28. september síðastliðinn. Skautafélag Reykjavíkur hefur sent kvörtun til ÍHÍ vegna málsins og aðstoðarþjálfari U18 kvennalandsliðsins í íshokkí, Alexandra Hafsteinsdóttir, hefur sagt upp störfum. RÚV greindi fyrst frá kvörtun SR en Vísir frá uppsögn aðstoðarþjálfara.

Eins leikjar bann fyrir meintan rasisma en þriggja mánaða bann fyrir meinta árás

Atvikið sem um ræðir hófst þannig að leikmaður SR varð fyrir ólöglegri ákeyrslu á höfuð eða háls frá leikmanni SA. Umræddum leikmanni SA var vísað á brott úr leiknum og hlaut eins leiks bann, en meðan leikmaður SR lá á svellinu eftir ákeyrsluna lét annar leikmaður SA „óviðeigandi orð“ falla í hans garð. Skautafélag Reykjavíkur, Alexandra sjálf, sem og vitni sem Vísir vitnar í, segir óviðeigandi orðin hafa vísað á niðrandi hátt til húðlitar leikmanns SR, em er dökkur á hörund. Eftir leikinn veittust tveir leikmenn SR, sá sem ummælunum var beint að og bróðir hans, að leikmanni SA sem lét ummælin falla. Sá sem ummælin beindust að á að hafa ráðist á hann líkamlega, en bróðir hans haft í hótunum.

Í kjölfar þessarar atburðarásar úrskurðaði aganefnd Íshokkísambands Íslands leikmann SA í eins leiks bann fyrir ummælin, en leikmaður SR sem ummælin beindust að og bróðir hans hlutu þriggja mánaða bönn fyrir áras og hótanir í garð leikmanns SA.

SR vill að málið sé endurskoðað

Skautafélag Reykjavíkur sendi formlega kvörtun á Íshokkísamband Íslands þar sem óskað er eftir því að málið verði tekið til endurskoðunar. Meðlimir og stjórn SR segja eins leikjar bann ekki fullnægjandi refsingu við kynþáttaníði, sérstaklega í ljósi þess að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem umræddur leikmaður SA hlýtur bann fyrir sambærilegt brot. Í kvörtuninni segir einnig að leikmenn SR sem hlutu þriggja mánaða bann hafi ekki fengið tækifæri til að segja sína hlið á málinu áður en dómur féll um bannið.

Bjarni Helgason, stjórnarmaður hjá SR, segir í samtali við RÚV í gær að töluverð óánægja sé innan íshokkíhreyfingarinnar vegna málsins. „Þetta hefur náttúrlega áhrif á þessa krakka og leikmenn sem margir hverjir hafa þurft að glíma við fordóma allt sitt líf, og þau hafa mörg hver lýst því yfir að þau ætli ekki að vinna fyrir Íshokkísamband Íslands, hvorki sem þjálfarar né gefa kost á sér í landslið út af þessu, og margir að íhuga það sama. Þannig að þetta hefur mikil áhrif á allt íshokkísamfélagið.“ 

Aðstoðarþjálfari landsliðs segir upp störfum

Alexandra Hafsteinsdóttir greindi frá því á Facebook síðu sinni í gær að hún hafi sagt upp störfum sem aðstoðarþjálfari U18 kvennalandsliðsins í íshokkí vegna málsins. Í pistli sínum segist hún ekki „með nokkru móti [getað] réttlætt það að vera sjálfboðaliði innan sambands sem tekur harðar á þeim sem verða fyrir rasisma heldur en þeim sem hafa endurtekið látið rasísk og fordómafull ummæli falla.“ Einnig segir hún að „orð gegn orði“ fái einungis að gilda um meint rasísk ummæli, en ekki um meintar hótanir. Hún segir ÍHÍ senda skýr skilaboð til þeirra sem eru dökkir á hörund að ekki verði hlustað á þau né þeim trúað innan hreyfingarinnar. Pistil Alexöndru í heild sinni er að finna hér að neðan.

Sambíó

UMMÆLI