Í fyrrinótt var karlmaður í annarlegu ástandi handtekinn á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri. Karlmaðurinn mætti á bráðamóttöku sjúkrahússins, vildi fá lyf og sýndi af sér ógnandi hegðun.
Á vef Sjúkrahússins segir að öryggisvörður hafi kallað til lögreglu en þá hafi einstaklingurinn flúið út úr byggingunni en hafi í kjölfarið brotið glugga í kjallara byggingarinnar og komist þaðan upp á fæðingadeild.
Þar sýndi hann af sér ógnandi hegðun og stofnaði öryggi starfsfólks og sjúklinga í hættu. Lögreglu tókst að yfirbuga manninn áður en skaði hlaust af. Áfallateymi var kallað til í kjölfarið.
Á vef Sjúkrahússins segir að öryggisviðbúnaður sjúkrahússins verði endurskoðaður í framhaldi af þessu atviki. Í samtali við Vikudag.is segir Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins, að aðgerðir varðandi öryggi Sjúkrahússins verði metnar útfrá þessari reynslu og málið verði tekið fyrir á næstu dögum.
„Það hefur aldrei gerst áður að einstaklingur hafi gengið svona langt og stofnað öðru fólki í hættu. Ég vona að slíkt komi aldrei fyrir aftur og það er okkar að tryggja það,“ segir Bjarni.
Sjá einnig:
UMMÆLI