NTC

Orkusjóður úthlutar tæpum 200 milljónum króna til Norðurlands eystra

Orkusjóður úthlutar tæpum 200 milljónum króna til Norðurlands eystra

16. ágúst síðastliðinn voru kynntar styrkveitingar úr Orkusjóði fyrir árið 2024. Alls fengu 53 verkefni 1,342 milljónir króna í þetta skiptið og þar af voru 13 verkefni sem koma til framkvæmda á Norðurlandi eystra. Þau verkefni fengu samtals tæpar 200 milljónir króna eða um 15 prósent af heildarúthlutuninni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef SSNE.

Dæmi um verkefni sem hlutu styrk á Norðurlandi eystra eru hraðhleðslugámar á Húsavík og í Reykjahlíð, hraðhleðslur í ferðaþjónustu fyrir stærri ökutæki við Mývatn, birtuorkuframleiðsla í Eyjafjarðarsveit, mengunarlausar fjórhjólaferðir, Green boat á Húsavík, aukin lífdíselframleiðsla hjá Orkey ehf og metanvinnsla á Dysnesi við Eyjafjörð.

„Um er að ræða afar fjölbreytt verkefni sem snúa að öllum sviðum orkuskipta á sjó og landi. Á Norðurlandi eystra eru þetta einkum verkefni sem snúa að innlendri eldsneytisframleiðslu, innviðauppbyggingu og bættri nýtingu auðlinda. Við hjá SSNE óskum styrkhöfum hjartanlega til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fylgjast með uppbyggingunni sem framundan er um land allt,“ segir í tilkynningu SSNE.

Allar upplýsingar um úthlutunina má nálgast á heimasíðu Orkustofnunar.

VG

UMMÆLI

Sambíó