Gæludýr.is

Orkumál

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar

Alþingiskosningar ber brátt að garði. Þar skipar undirrituð 2. sætið á lista VG í norðausturkjördæmi. Ég bý á Björgum í Kinn í Þingeyjarsýslu þar sem systir mín og ég tókum við búi 2017 af foreldrum okkar. Þar er mjólkurframleiðsla, umfangsmikil jarðrækt,kornrækt og örfáar kindur.
Meðal starfa minna í félagsmálum má nefna formennsku í Samtökum ungra bænda og þá hef ég setið í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar frá árinu 2018 og er nú formaður byggðarráðs.

Ástæða þess að ég gef kost á kröftum mínum á þessum vettvangi nú er að ég tel erindi VG í náttúruvernd, félagshyggju, kvenfrelsi og friðarmálum aldrei hafa verið meira í þeirri hægriöldu sem nú skekur landið. Það að vera til vinstri þýðir að hafna fordómum gegn minnihlutahópum, rasisma og auknu kvenhatri. Að vera til vinstri er að vinna að félagslegum umbótum, styðja við réttindabaráttu starfsstétta og minnka bil milli þjóðfélagshópa.


Tilbúinn orkuskortur
Ásókn peningaafla í auðlindir til lands og sjávar er verkefni sem við blasir í t.d. afvegaleiðandi umræðu um orkuskort. Þá er talað um kyrrstöðu í orkumálum þjóðar þegar síðast árið 2017 hefur verið virkjaður jarðhiti í Þingeyjarsýslum upp á tugi megawatta með 90mw Þeistareykjastöð.
Skoðun mín er sú að það þurfi að nálgast orkuöflun landsins með því að virða og nota Rammaáætlun, áætlun um vernd og orkunýtingu og staðfest er af Alþingi og að orkuöflun landsins sé á höndum Landsvirkjunar. Þá á Landsvirkjun að vera í eigu þjóðarinnar og á aldrei að selja, hvorki að hluta eða heild, þrátt fyrir hugmyndir frjálshyggjunnar um annað. Þá þarf að sporna við uppkaupum auðvalds á jörðum og auðlindum til að auka sinn einka gróða. Lukkuriddara sem lofa öllu fögru í peningum og gylliboðum í krafti þess að eyðileggja náttúruna þarf að stöðva. Móta þarf heildarstefnu um nýtingu á vindorku, í rammaáætlun og þar er Landsvirkjun áfram í lykilstöðu og hefur jafnframt miðlunarlón sín við stórar virkjanir til sveiflujöfnunar.


Flutningskerfið þarf að styrkja
Flutningskerfi raforku landsins er veikt og þarf að styrkja til að atburðir á borð við þá sem urðu 2. október sl., þegar stór hluti landsins varð rafmagnslaus, eigi sér ekki stað og að svæði á borð við Langanes þurfi ekki lengur að líða orkuskort.
Nægri orku er til að skipta með þeim áformum sem þegar eru á borði Landsvirkjunar og með bættri nýtingu þeirra svæða sem nú þegar eru virkjuð og með virkjun topphita á jarðhitasvæðum t.d. á Þeistareykjum.
Óábyrgt er að tala um orkuskort á landinu þegar nægri orku er að skipta fyrir íbúa og smærri fyrirtæki. Stórnotendur raforku, stóriðja og gagnaver munu ávallt sækjast eftir ódýrri orku. Í allri umfjöllun um raforku og flutning hennar til að skapa góð búsetuskilyrði smærri fyrirtækja og almennings, verður þó eitt grundvallaratriði að vera í fyrirrúmi. Náttúran nýtur vafans.

Jóna Björg Hlöðversdóttir. 2. sæti hjá Vinstrihreyfingin – grænt framboð Norðausturkjördæmi.

Sambíó

UMMÆLI