Ördeyða á miðunum!

Sigurður Guðmundsson skrifar

Ferlega er ég orðinn þreyttur á þessari umræðu um dagpeninga sjómanna. Verið að splæsa þessa umræðu við niðurfellingu sjómannaafsláttar á sínum tíma. Það er akkúrat engin tenging þarna á milli. Einhver tilbúin staðreyndavilla sem er haldið á lofti og allir gleypa málflutninginn hráann. Sjómannaafslátturinn var barn síns tíma og kominn í algjört rugl þegar hann var aflagður. Hafnarstarfsmenn voru t.d. allir skráðir á kolryðgaða dráttarbáta og nutu afsláttarins þó að aldrei hafi þeir þurft að fara um borð heldur tóku bara við endum þegar þurfti. Beitningarmenn sem sátu og hengdu síldarbita á króka í landi voru líka á þessum afslætti. Það gleymist stundum að rifja hlutina upp í réttu samhengi í stað þess að búa til einhverju tilbúna niðurstöðu sem stenst enga skoðun. Svo lepja allir miðlar þetta upp einsog einhvern sannleik sem einhver leikskólabörn hafa búið til sem ekki þekkja staðreyndir málsins.

Ég skal ekki trúa að þetta sé það eina sem stendur útaf borðinu í þessu verkfalli. „Eru fjarri heimilum sínum“ er nú einn frasinn. Hvenær í andskotanum hafa sjómenn verið að fiska úti í sínum eigin garði? Búandi kannski í Víðmýri. Væri líklega heimsmet ef sjómaður gæti verið heima hjá sér og verið á sjó á sama tíma. Að vera á sjó þýðir að þú ert fjarri heimili þínu. Þarf ekkert að segja okkur það þúsund sinnum. Þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf verða. Við erum ekki hálfvitar.

Að borga um kr. 600 af fæðispeningum á dag í skatt þegar launin eru einhverjir tugir þúsunda á dag er lítilræði. Venjulegt launafólk þarf að borga sjálft fyrir matinn sinn svona öllu jöfnu. Réttast væri þá að hækka þessa upphæð þannig að hún myndi dekka skattinn eða einsog ég hef sagt áður að útgerðin borgi einfaldlega matinn. Held að sjómenn hafi það svona heilt yfir ágætt og útgerðarmenn flestir bara verulega gott. Búnir að raka saman fé frá hruni og gætu réttilega séð af nokkrum aukakrónum til sjómanna. Kannski væri ráð að innkalla kvótann ef ekki næst að semja fyrir 1. mars. Hirða 1% á dag aftur til ríkisins til að búa til pressu. Held að útgerðarmenn væru fljótir að semja ef þeim væri stillt upp við vegg. Það hefur ekki gerst frá landnámi og kannski er kominn tími til. Þeir fengu t.d. loðnubónus í dag. Ekki fengu sjómenn neitt.

Það merkilega við inngrip ríkisins í kjaradeilum, er að það er alltaf á kostnað launþega. Vissulega eru verkföll erfið og bitna á fleirum en þeim sem standa andspænis hvor öðrum í kjaradeilu. Það fylgir öllum svona erjum. Eitt er ég þó viss um, að ef Sjálfstæðisflokkur og Framsókn héldu um stjórnartauma væri búið að setja lög á þetta verkfall. Viðreisn stendur í lappirnar í þessu máli og er það jákvætt.

Áfram sjómenn.

UMMÆLI

Sambíó